Möndlu-, döðlu- og engifersdrykkur

Þessi uppskrift kemur úr bók sem ég á sem heitir Healing Drinks og er hreint út sagt frábær. Möndlur eru algjör undraafurð en í möndlum leynist mikið kalk, E vítamín, magnesíum, B2 vítamín og margt fleira. Þær eru einnig próteinríkar. Bæði magnesium og E vítamín stuðla að heilbrigðu hjarta og æðarkerfi. Ég notaði sojamjólk í staðinn fyrir hrísmjólk en nota má hvoru tveggja eða jafnvel haframjólk, möndlumjólk eða það sem hentar ykkar þörfum best. Fyrir þá sem eru sérstaklega að styrkja beinin væri möndlumjólk góður kostur. Drykkurinn er bæði léttur og frískur og þeir sem hafa mjólkuróþol geta drukkið hann með góðri samvisku.

Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þessa uppskrift.


Verulega hollur og góður drykkur

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án hneta

Möndlu-, döðlu- og engifersdrykkur

Fyrir 2

Innihald

  • 300 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
  • 100 g döðlur, saxaðar gróft og lagðar í bleyti í 30 mínútur
  • 1 msk möndlumjöl (fínmalaðar möndlur) eða möndlusmjör
  • 0,5 sm bútur ferkst engifer, afhýtt og saxað mjög smátt

Aðferð

  1. Saxið döðlurnar gróft og leggið í bleyti í volgt vatn í um 30 mínútur.
  2. Afhýðið engiferið og saxið það afar smát.
  3. Hellið vatninu af og setjið döðlurnar í blandara ásamt 100 ml af sojamjólkinni. Blandið í um eina mínútu eða þangað til silkimjúkt.
  4. Bætið möndlumjölinu saman við ásamt afganginum af sojamjólkinni (minna ef þið viljið þynnri drykk).
  5. Hellið í glös og berið fram strax.
  6. Ef mikið af döðlum er í botninum má dreifa þeim jafnt á milli glasanna.

Gott að hafa í huga

  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Möndlumjöl (enska: almond meal/almond flour) og möndlusmjör (enska: almond butter) fæst í heilsubúðum eða í heilsuhillum matvöruverslana.
  • Ef þið finnið ekki möndlumjöl má mala möndlurnar afar fínt í blandara eða matvinnsluvél.
  • Nota má þurrkað og malað engifer í staðinn fyrir ferskt. Notið aðeins svolitla klípu.