Mexikönsk ýsa

Nokkuð bragðmikill en afar góður fiskréttur, bakaður í ofni. Nota má steinbít, þorsk eða lúðu í stað ýsunnar. Best er að vera búin að útbúa salsasósuna með smá fyrirvara. Einnig má kaupa hollar sósur í heilsubúðum, sparar fyrirhöfnina. Gætið þess að sumar salsasósur geta verið ansi sterkar svo skoðið merkingar á krukkum til öryggis...ekki gott ef fjölskyldan liggur í slökkvitækinu eftir kvöldmat....

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Mexikönsk ýsa

Fyrir 2-3

Innihald

  • 450 g ýsuflök, roðflett og beinhreinsuð
  • 100 g magur ostur, rifinn
  • 4 dl salsa
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt) og svartur pipar
  • 1 tómatur, skorinn í þunnar sneiðar
  • 2 tsk fersk steinselja, söxuð

Aðferð

  1. Skerið ýsuflökin í nokkra stóra bita.
  2. Leggið ýsubitana ofan í eldfast mót (óþarfi er að smyrja mótið).
  3. Hellið salsasósunni yfir. Saltið og piprið eftir smekk.
  4. Leggið tómatsneiðarnar ofan á og dreifið söxuðu steinseljunni yfir.
  5. Rífið ostinn og stráið honum yfir.
  6. Hitið í ofni við 200°C í 20 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Berið réttinn fram með hýðishrísgrjónum eða byggi og salati.
  • Ef þið viljið að ýsan taki í sig meira bragð af sósunni þá er gott að þekja ýsuna alveg með sósunni og láta hana liggja svoleiðis í nokkrar klukkustundir í kæli.
  • Kaupið holla og lífrænt framleitt salsasósu úr heilsubúð ef þið eruð ekki með heimatilbúna salsasósu. Gætið þess að ekki sé sykur eða viðbætt efni (t.d. E-600 efni, Monosodium Glutamate eða MSG) í sósunni. Sósan ætti ekki að innihalda mikla fitu því uppistaðan ætti að vera grænmeti. Kaupið helst lífrænt framleidda sósu í heilsubúð).

Ummæli um uppskriftina

Guðný Pálína Sæmundsdóttir
31. maí. 2011

Alveg frábær uppskrift! Passar bæði fyrir börn og fullorðna, mjög bragðgott.

sigrun
01. jún. 2011

Gaman að heyra Guðný :)

Birna Hannesdóttir
24. jún. 2013

hummm ostur? er það ekki úr mjólk....

sigrun
24. jún. 2013

Að sjálfsögðu, er búin að leiðrétta, takk.