Mango- og hnetusmjörsdrykkur
13. febrúar, 2005
Ég var að nota mango og banana sem var á síðasta snúningi og úr varð alveg voðalega góður drykkur (smoothie). Hann er fullur af vítamínum, upplagður eftir ræktina eða sem morgundrykkur. Ekki vera hrædd við að nota hnetusmjör því það inniheldur holla og nauðsynlega fitu og í litlu magni er það afar sniðugt (og svooooo gott). Notið bara lífrænt framleitt hnetusmjör án viðbætts sykurs eða heimatilbúið hnetusmjör.
Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þennan drykk.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án hneta
Mango- og hnetusmjörsdrykkur
Fyrir 2
Innihald
- 1 vel þroskað, frekar stórt mango, afhýtt og skorið í bita
- 2 vel þroskaðir bananar, skornir í grófa bita
- 300-400 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
- 2 msk hnetusmjör (heimatilbúið eða úr heilsubúð)
- Nokkrir ísmolar
Aðferð
- Afhýðið mangoið, fjarlægið steininn og skerið mangokjötið í stóra bita.
- Skrælið banana og skerið í grófa bita.
- Setjið ísmola í blandarann ásamt 50 ml af sojamjólkinni. Blandið í nokkrar sekúndur.
- Setjið mango, banana, hnetusmjör og 250 ml af sojamjólkinni í blandarann og blandið áfram (í um 30-60 sekúndur á fullum krafti). Drykkurinn ætti að verða silkimjúkur en ef hann er of þykkur bætið þá meiri sojamjólk út í.
- Hellið í glös og berið fram strax.
Gott að hafa í huga
- Það er gott að geyma mangóið í kæli áður en það er sett í drykkinn því þá verður drykkurinn enn þá kaldari.
- Gott er að setja smá klípu af kanil og/eða möluðum kardimommum í drykkinn.
- Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025