Mango- og engiferssúpa frá Masai Mara

Þessa súpu fékk ég hjá stúlku sem heitir Margaret Ngugi en hún er kokkur á Mara Simba Lodge í Masai Mara í Kenya en þar dvaldi ég í nokkra daga í febrúar 2007. Þegar súpan var borin á borð og kynnt ætlaði ég að afþakka því mér fannst hún hljóma ekkert alltof vel en eftir mikinn þrýsting og loforð um gott bragð, ákvað ég að smakka á henni. Eins og alltaf er hollt fyrir mann að láta fordóma lönd og leið og súpan bragðaðist afar vel. Hún var uppbökuð hjá Margaret en ég hef hana aðeins hollari og sleppi smjörbollunni. Hún er því aðeins þynnri hjá mér en það má setja smá matreiðslurjóma eða hafrarjóma út í súpuna ef maður vill hana þykkari. Skálina og skeiðina keypti ég í Mombasa en dúkurinn sem súpuskálin fína stendur á, kemur úr Masai þorpi í Masai Mara og hann seldi mér höfðinginn sjálfur. Hann þverneitaði að selja mér hann á lægra verði en 2000 kenyska shillinga (um 2000 krónur íslenskar) því hann var að safna sér fyrir belju til að geta keypt fleiri eiginkonur. Höfðinginn þessi notaði filmubox til að stækka gatið í eyranu sínu (mjög sérstakt að sjá mann með filmubox í eyranu þar sem við hin höfum eyrnalokka). Dúkinn (sem er eiginlega teppi) nota Masair meðal annars til að hræða burt fíla og ljón en aðallega fíla því þá eru Masair dauðhræddir við þó þeir hræðist fátt. Anderson Masai sem var bílstjórinn okkar í þessari ferð sagði okkur til dæmis að þegar hann var lítill strákur þá var honum kennt að henda teppinu í jörðina og hlaupa í burtu því fíllinn trampar á teppinu (þar sem lyktin er) en fattar ekki að þú hleypur í burtu. Það þýðir ekkert að klifra upp í tré eða hlaupa undan fílum í árásarham því þeir hlaupa þig uppi eða hrista þig úr trénu. En frá fílum í engifer. Engiferið er afar gott við bílveiki, sjóveiki og almennt við flökurleika og magakvillum, eitthvað sem kokkarnir hafa lært af bílveiku ferðafólkinu! Jæja þetta var alltof langur formáli að uppskrift (og alltof löng kennslustund í fíla-fælufræðum) en vonandi njótið þið súpunnar!


Mango- og engiferssúpa frá Kenya á masai dúk

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta

Mango- og engiferssúpa frá Masai Mara

Fyrir 4-5

Innihald

 • 10-20 g engifer, saxað smátt (notið 10 grömm fyrir milt bragð)
 • 400 ml mangosafi (hreinn)
 • 150 ml léttmjólk (einnig má nota hrísmjólk eða sojamjólk)
 • 700 ml vatn
 • 2 gerlausir grænmetisteningar
 • 2 msk kartöflumjöl eða spelti 
 • 1 tsk kókosolía og svolítið vatn
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð

 1. Afhýðið engiferið og saxið smátt.
 2. Hitið kókosolíu í djúpum potti.
 3. Hitið engiferið í um 2 mínútur. Bætið svolitlu vatni saman við ef þarf.
 4. Hrærið kartöflumjölið eða speltið út í en gætið þess að það brenni ekki við.
 5. Bætið vatninu og grænmetisteningunum út í og látið suðuna koma upp.
 6. Látið malla í 30 mínútur.
 7. Sigtið súpuna í gegnum fíngatað sigti.
 8. Bætið mangosafanum út í.
 9. Bætið léttmjólkinni út í (bætið hægt út í og smakkið súpuna til, ekki víst að þurfi alla mjólkina).
 10. Saltið eftir smekk.

Gott að hafa í huga

 • Það á að vera mjög gott jafnvægi á milli engifers og mangos svo hafið það í huga þegar súpan er tilbúin og jafnið bragðið til ef þarf með meiri mjólk, mangosafa o.s.frv.

Ummæli um uppskriftina

Sunna Siggeirsdóttir
10. jún. 2013

Hvar fæ ég mangósafa?

sigrun
10. jún. 2013

Hann hefur fengist í Hagkaupum en annars í heilsubúðum. Ef þú færð hann ekki geturðu maukað mango og þynnt með svolitlu vatni.