Malasísk kókossúpa með hrísgrjónanúðlum
Þessi uppskrift er svolítið maus en er alveg rosalega góð. Hægt er að nota tofu eða sojakjötsbita í staðinn fyrir rækjurnar. Ef þið notið tofu, setjið það þá út í súpuna alveg í lokin en sojakjötsbitana getið þið meðhöndlað alveg eins og rækjurnar. Í upprunalegu uppskriftinni sem ég fann fyrir löngu síðan í einhverri bók (man ekki hvaða) var fersk mynta en ég ég sleppti henni þar sem mér finnst mynta aldrei passa í mat, (finnst ég alltaf vera að borða hálstöflur eða tannkrem). Ég veit ekki alveg hvort þurrkað rækjumauk (enska: dried shrimp paste) fæst á Íslandi en þess virði að athuga það í verslunum sem sérhæfa sig í austurlenskri matvöru eða í sælkeraverslunum. Ef þið finnið ekki rækjumauk, er hægt að nota 1 msk af maísmjöli (eða kartöflumjöli eða arrow root) og 2 msk af fiskisósu (Nam Plah). Athugið einnig með Tamarindmaukið í betri verslunum og sælkerabúðum en ef þið finnið það ekki getið þið sleppt því.
Hægt er að kaupa kryddmaukið sjálft sem notað er í súpunni og heitir það þá Laksa (athugið að það hefur ekkert með fisktegundina lax að gera). Það er auðvitað best að búa til það sjálfur ef maður hefur tíma og ég hef hingað til alltaf útbúið það sjálf. Þetta er svo sem ekkert léttasti matur í heimi en samt er hann hollur þ.e. með hvítlauk, gúrkum, baunaspírum, chili pipar, hnetum, fersku kryddi o.fl. Sem sagt stútfullt af vítamínum og næringarefnum. Að lokum, þó að séu notuð þrjú stykki af chili pipar í réttinn þá er hann ótrúlega mildur. Passið bara að skafa vel innan úr piparnum líka skilveggina innan í (ekki bara fræin).Já og eitt í viðbót: Tamarisósa er ekki það sama og tamarindmauk. Tamarisósa er svört sósa unnin úr sojabaunum, svipuð og sojasósa nema án hveitis en tamarindmauk er unnið úr tamarindfræjum sem vex á samnefndum trjám. Trén finnst aðallega í Suður-Asíu, á Indlandi en einnig í Afríku og öðrum heitum stöðum. Ég keypti allavega einu sinni tamarindmauk nánast beint af trénu í Mombasa, Kenya. Tamarind er talið hjálpa ónæmiskerfinu sporna gegn sjúkdómum og sýkingum og er svolítið sætsúrt á bragðið. Það er alltaf svolítið maus að búa til svona mat en það er hægt að flýta fyrir sér til dæmis með því að vera búin að búa til kryddmaukið deginum áður.
Ef þið gerið kryddmaukið sjálf þurfið þið matvinnsluvél eða töfrasprota.
Malasíska kókossúpan með núðlum og rækjum
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
Malasísk kókossúpa með hrísgrjónanúðlum
Innihald
- 24 risarækjur eða sambærilegt magn af tofui, kjúklingi eða sojakjöti
- 500 g ferskur kræklingur (eða um 300 g kræklingur í dós)
- 110 g miðlungs þykkar hrísgrjónanúðlur
- 400 ml kókosmjólk
- 50 g ósaltaðar, þurrristaðar macadamia hnetur
- 1 msk kókosolía
- 50 g gúrka, flysjuð og skorin í ræmur, miðjan er ekki notuð
- 110 g ferskar baunaspírur
- Safi úr 1 límónu
- Lófafylli ferskt basil (einungis laufin), rifin gróft
- Lófafylli af ferskri myntu, einungis laufin, rifin gróft (má sleppa)
- Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 1 tsk fiskisósa (Nam Plah)
- 2 msk eða meira tamarindmauk (má sleppa)
Fyrir kryddmaukið:
- 3 miðlungsstórir chili pipar, rauðir, fræhreinsið og saxið gróft
- 1 kúfull tsk af þurrkuðu rækjumauki (enska: dried shrimp paste)
- 1 hvítlauksgeiri, afhýddur og saxaður gróft
- 4 skallotlaukar, afhýddir og saxaðir gróft
- 2 stilkar sítrónugras (enska: lemon grass), hendið ytri blöðum og saxið innri stilkinn
- Smá bútur af fersku engiferi, afhýðið og saxað gróft
- 1 tsk turmeric
Aðferð
- Undirbúið kryddmaukið: (Athugið að kryddmaukið má undirbúa deginum áður). Skerið chili piparinn í helminga, frærhreinsið og saxið gróft. Afhýðið hvítlauksgeirann og skallotlaukana og saxið gróft. Hendið ytra hýðinu af sítrónugrasinu og saxið innri stilkinn smátt. Afhýðið engiferið og saxið smátt.
- Setjið allt innihaldið í matvinnsluvél: (chili piparinn, hvítlaukinn, skallotlaukana, sítrónugrasið, engiferið, turmeric duftið og rækjumaukið, ásamt nokkrar matskeiðar af vatni). Blandið í 1-2 mínútur eða þangað til vel maukað. Setjið til hliðar.
- Næst skuluð þið hafa til kræklinginn. Ef þið notið ferskan krækling í skel þarf að bursta hann undir köldu vatni og toga af skeggið sem er stundum á skelinni. Hendið þeim kræklingum sem eru brotnir eða lokast ekki ef maður bankar fast á skelina með hníf.
- Næst skal setja hrísgrjónanúðlurnar í skál og hella sjóðandi vatni yfir. Látið þær liggja í nokkrar mínútur. Þið þurfið ekki að elda núðlurnar meira, bara að hita þær. Gætið þess að merja ekki núðlurnar þ.e. reynið að halda þeim heilum. Sigtið núðlurnar í nokkrar mínútur og látið svolítið af köldu vatni renna á þær.
- Setjið makadamíuhneturnar eða jarðhneturnar á pönnu (án olíu) og þurrristið þær yfir meðalhita í um 3-5 mínútur. Færið á disk og kælið. Saxið svo gróft.
- Hitið kókosolíu á stórri og þegar olían er orðin heit, bætið þá kryddmaukinu út á og hitið á meðalhita í um 2 mínútur.
- Bætið kókosmjólkinni saman við ásamt fiskisósunni og tamarind maukinu og hrærið. Látið malla í um 10 mínútur
- Á meðan maukið mallar, skerið þá gúrkuna langsum og skerið svo hvern hluta í fjórar lengjur.
- Þegar kókosmaukið á pönnunni er orðið tilbúið, bætið þá núðlunum út í ásamt gúrkunum, baunaspírunum (geymið fjórðung) og límónusafanum. Gætið þess vel að hræra ekki of mikið í núðlunum því þær eiga að haldast heilar (má líka bæta þeim út alveg í lokin ef þið viljið vera viss um að merja þær ekki).
- Smakkið til með tamarisósu.
- Látið suðuna koma upp og bætið sjávarréttunum (kræklingum og rækjum) út í og hitið í um 3-5 mínútur.
- Skeljarnar (kræklingurinn) ættu nú að opnast og hendið þeim skeljum sem opnast ekki.
- Bætið nú við helmingnum af kryddjurtunum (myntu og basil) og bætið afgangnum saman við söxuðu hneturnar.
- Ausið súpu í djúpar skálar og dreifið afganginum af baunaspírunum, hnetunum og kryddjurtunum yfir.
- Berið fram sjóðandi heitt.
Gott að hafa í huga
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu. - Ég nota aldrei myntu í mat, finnst eins og ég sé að borða hálstöflur eða tyggjó.
- Allt í lagi er að hita réttinn upp daginn eftir og jafnvel borða kaldan. Þegar á að hita hana daginn eftir skal gæta þess vel að súpan verði sjóðandi heit, það ætti aldrei að bera svona súpur fram volgar vegna hættu á matareitrun af sjávarréttunum. Aldrei of varlega farið! Það er ekki mælt með því að hita súpuna upp aftur (þriðja daginn) en ætti að vera allt í lagi að borða kalda daginn eftir. Viðkvæmt fólk (t.d. ófrískar konur, aldraðir og ung börn) ættu alltaf að fara varlega í ferska sjávarrétti.
- Nota má kjúkling eða tofu (eða meira grænmeti) í staðinn fyrir rækjurnar.
- Tamarindmauk fæst í flestum verslunum sem sérhæfa sig í austurlenskri matargerð.
- Rækjumauk (dried shrimp paste) fæst stundum í verslunum sem sérhæfa sig í austurlenskri matargerð en í staðinn fyrir rækjumauk má nota 1 msk af maísmjöli (eða kartöflumjöli eða arrow root) og 2 msk af fiskisósu (Nam Plah).
- Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
- Nota má aðrar núðlutegundir í súpuna t.d. soba núðlur, udon núðlur eða speltnúðlur.
- Nota má ósaltaðar jarðhnetur án hýðis, í staðinn fyrir macadamia hnetur.
- Tamarindmauk fæst yfirleitt í sælkeraverslunun og austurlenskum verslunum, ef þið finnið það ekki má sleppa því.