Majones

Þessi uppskrift kemur upprunalega frá breskri konu að nafni Eliza Acton og gaf hún uppskriftina út árið 1840. Ég bætti aðeins við uppskriftina þ.e. setti sinnepsduft, karrí og svolítið agavesíróp saman við.

Með 5% sýrðum rjóma er þetta nokkuð hollt þrátt fyrir eggjarauðurnar en því má ekki gleyma að þær innihalda vítamín líka og eru hollar í litlu magni. Einfalt er að útbúa majonesið en maður þarf nokkurra klukkustunda fyrirvara því majonesið þarf að þykkna í kæli áður en maður notar það. Ég kaupi einungis sýrðan rjóma án gelatíns (frá Mjólku) en einnig má nota sýrðan sojarjóma ef þið finnið svoleiðis. Það má nota ólífuolíu á móti sýrða rjómanum.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án hneta

Majones

Gerir um 300 ml

Innihald

  • 3 stór egg
  • 150 ml 5% sýrður rjómi (án gelatíns frá Mjólku) eða sýrður sojarjómi
  • 4 tsk hvítvínsedik (hægt að nota sítrónusafa líka en bragðið verður auðvitað ekki eins)
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 2 klípur cayenne pipar
  • 1 tsk sinnepsduft (enska: powdered mustard)
  • 0,5 tsk karrí
  • 0,5 tsk agavesíróp

Aðferð

  1. Setjið eggin í pott með nægilega miklu af köldu vatni þannig að fljóti yfir. Fylgist með því þegar vatnið byrjar að sjóða og um leið og það byrjar, mælið þá tímann nákvæmlega í 9 mínútur.
  2. Eftir 9 mínutur skuluð þið setja eggin undir, kalt, rennandi vatn til þess að þau sjóði ekki meira.
  3. Þegar þau eru orðin köld, takið þá skurnina af og skerið eggin í hálft. Mokið eggjarauðunum í skál.
  4. Bætið matskeið af köldu vatni út í skálina og merjið eggjarauðurnar með trésleif þangað til þær eru orðnar vel maukaðar. Einnig má nota töfrasprota.
  5. Bætið cayenne pipar, karríi, sinnepsdufti og salti saman við.
  6. Bætið sýrða rjómanum saman við hægt og varlega og blandið vel allan tímann.
  7. Þegar allt er orðið vel blandað skuluð þið bæta við hvítvínsedikinu og agavesírópinu.
  8. Ef majonesið er mjög þunnt skuluð þið ekki hafa miklar áhyggjur af því á þessu stigi, pakkið því inn í plast og geymið í kæli í nokkrar klukkustundir.
  9. Athugið að áferðin verður eins og á þykkum, óþeyttum rjóma, frekar en majonesi.

Gott að hafa í huga

  • Sinnepsduft fæst í flestum stærri matvöruverslunum en er líka stundum selt í verslunum sem sérhæfa sig í austurlenskum matvörum.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
     

Ummæli um uppskriftina

santa
10. maí. 2011

Sæl Sigrún
Á ekki að nota eggjahvítuna?

sigrun
10. maí. 2011

Nei einungis rauðuna, það má borða hvítuna bara eða nota í rækjusalat/túnfiskssalat :)

gestur
15. jún. 2011

Hvað eru hamingjuegg?

sigrun
15. jún. 2011

Það eru egg orpin af hænum sem ekki eru í búrum og fá að valsa um frjálsar. Eggin, sem eru brún eru í grænum umbúðum og fást m.a. í Bónus og flestum stærri verslunum.

Kv.

Sigrún

Sonja Ólafs
23. nóv. 2012

Hvað er hægt að nota í staðin fyrir belgpipar? Ég er að taka út citrus og þá er allur belgpipar á bannlista.

Kv sonja

sigrun
23. nóv. 2012

Notaðu bara fínmalaðan hvítan pipar í staðinn, það ætti að vera allt í lagi (smakkaðu bara til, prufaðu 1/4 tsk fyrst).