Lummur með bláberjum

Ekta góð lummuuppskrift en auðvitað holl. Það er ekkert betra en að nota fersk bláber úr berjamó! Upplagt er að nota kaldan hafragrautsafgang ef þið eigið hann til, út í deigið. Þetta er fitulítil og próteinrík uppskrift og full af andoxunarefnum (úr bláberjunum).


Bláberjalummur, þjóðlegar og góðar

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án hneta

Lummur með bláberjum

Gerir 8-10 lummur

Innihald

  • 75 g haframjöl
  • 125 ml vatn (gæti þurft meira)
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 60 g spelti
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 0,5 tsk kanill
  • 1 egg, hrært lauslega
  • 3 msk agavesíróp
  • 1 msk kókosolía
  • 65 ml sojamjólk (eða önnur mjólk), notið helminginn fyrst og bætið við ef þarf
  • 140 g fersk (ekki frosin) bláber

Aðferð

  1. Sjóðið vatn og haframjöl saman í um 7-10 mínútur þangað til úr verður þykkur grautur. Bætið við meira vatni ef þarf.
  2. Sigtið saman í stóra skál: spelti, vínsteinslyftiduft, kanil og salt.
  3. Hrærið saman í annari skál: egg, agavesíróp, kókosolíu og sojamjólk. Hrærið varlega saman og hellið út í stóru skálina.
  4. Hrærið varlega en þannig að allt blandist vel saman. Hellið hafragrautnum út í og hrærið varlega.
  5. Hitið pönnukökupönnu á um það bil hæsta hita.
  6. Setjið svolitla kókosolíu í eldhúsþurrku og dreifið yfir pönnuna.
  7. Hellið hálfri til einni ausu af deigi út á pönnuna.
  8. Dreifið 1 msk af bláberjum ofan á blautt deigið og ýtið ofan á hvert bláber, mjög varlega svo það fari aðeins inn í deigið. Hitið lummuna vel og snúið við með pönnukökuspaða.
  9. Endurtakið með afganginn af deiginu.
  10. Berið lummurnar fram heitar og með hreinu hlynsírópi (enska: maple syrup), agavesírópi eða einhverju öðru sem ykkur finnst gott að hafa með.

Gott að hafa í huga

  • Ef notuð eru frosin bláber þarf að setja þau frosin í deigið og minnka sojamjólkina allavega um helming.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
     

Ummæli um uppskriftina

barbietec
03. júl. 2011

Hér eftir mun ég gera svona hollustu lummur, er hætt að gera mína hefðbundnu með SMJÖRLÍKI! og SYKRI!... í alvöru! Afhverju datt mér ekki í hug að hafa hafragraut í lummum! Miklu hollara!

Og bláberin..... mmmmm... bláberin!

sigrun
03. júl. 2011

He he ég geri ráð fyrir að þú verðir í haust að sópa upp af berjalyngjum landsins :) En án gríns þá er SVO sniðugt að eiga mikið af bláberjum í frystinum. Maður setur örlítið af hrásykri með í pokann og frystir og þau geymast alveg í heilt ár þannig.