Litlar hnetusteikur með tómatsívafi
28. nóvember, 2009
Það má útbúa stærri hnetusteik (frekar en að gera litlar hnetusteikur) en mér finnst gaman að bera fram svona litlar fyrir hvern og einn og skreyta með grjónum, salati, sósu o.fl. Hnetusteikurnar eru frekar mildar á bragðið og henta vel fyrir alla fjölskylduna. Þær eru einnig upplagður jólamatur. Ég ber þær fram með einfaldri tahinisósu en þið getið notað aðrar sósur í staðinn. Ef þið eruð jurtaætur (enska: vegan) eða með mjólkuróþol getið þið notað sojaost í staðinn fyrir venjulega ostinn.
Athugið að matvinnsluvél þarf fyrir þessa uppskrift.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
Litlar hnetusteikur með tómatsívafi
Gerir 10-12 litlar hnetusteikur
Innihald
Hnetusteikurnar:
- 150 g kjúklingabaunir (soðnar, eða úr dós)
- 150 g möndlur, cashew- eða heslihnetur (hlutföll eftir smekk)
- 150 g magur ostur, rifinn
- 150 g stíft tofu, hellið vatninu af og kreistið tofuið aðeins með eldhúsþurrku
- 100 g sólþurrkaðir tómatar (án olíu)
- 10 g parmesan ostur
- 10 g sesamfræ (má sleppa)
- 3 msk holl tómatsósa (úr heilsubúð)
- 2 msk tómatmauk (tomato puree)
- 1 tsk tabasco sósa eða piparsósa (hot pepper sauce) (má sleppa)
- 0,5 tsk svartur pipar
- 0,5 tsk timian
- Smá klípa basil
Einföld tahini sósa (Gerir um 150 ml)
- 4 msk tahini (sesammauk)
- 100 ml hreinn appelsínusafi
- 2 msk tamarisósa
- 2 tsk tabasco sósa (eða piparsósa (hot pepper sauce))
- 2 tsk hrísgrjónaedik (eða annað edik sem ykkur finnst gott, má líka sleppa)
Aðferð
Aðferð-Hnetusteikurnar:
- Saxið sólþurrkuðu tómatana smátt og leggið í bleyti í 20 mínútur. Hellið vatninu af tómötunum.
- Rífið magra ostinn og parmesan ostinn.
- Hellið vatninu af kjúklingabaununum og tofuinu. Þerrið tofuið með eldhúsþurrku.
- Setjið hneturnar í matvinnsluvél og látið vélina vinna í 10-15 sekúndur. Ekki mala of lengi því áferðin má gjarnan vera þannig að maður finni fyrir hnetunum.
- Bætið kjúklingabaunum, tómötum, tofu, osti, sesamfræjum og parmesan osti út í vélina. Látið hana vinna í nokkrar sekúndur.
- Bætið tómatsósu, tómatmauki, tabasco sósu, pipar, timian og basil út í vélina og látið hana vinna í nokkrar sekúndur þangað til allt blandast vel saman. Skafið hliðar vélarinnar og blandið áfram í nokkrar sekúndur. Ef blandan er þurr, skuluð þið bæta við nokkrum dropum af vatni.
- Saltið og piprið eftir smekk.
- Mótið buff/litlar hnetusteikur úr blöndunni með 8 sm formum (um það bil, mega vera stærri). Ég nota smákökumót (cookie cutter) til að útbúa steikurnar en þið getið notað eitthvað annað.
- Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og raðið hnetusteikunum á bökunarpappírinn.
- Bakið við 180°C í 25-30 mínútur.
- Berið fram með soðnu byggi, salati og tahini sósu.
Aðferð-tahini sósan:
- Blandið saman tahini, appelsínusafa, tamarisósu, tabasco sósu (setjið nokkra dropa fyrst og bætið svo við meiru ef þið þolið) og hrísgrjónaedik í litla skál. Hrærið mjög vel með sósupískara. Það þarf ekki endilega að nota blandara en þið getið notað hann ef þið viljið.
- Geymið við stofuhita þangað til á að bera salatsósuna fram (hún stífnar annars í kæli).
Gott að hafa í huga
- Hægt er að útbúa sósuna með nokkurra daga fyrirvara og taka svo sósuna út úr ísskáp nokkrum klukkustundum áður en á að nota hana.
- Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
- Ef þið finnið aðeins sólþurrkaða tómata í olíu má annað hvort þerra olíuna með eldhúsþurrku en einnig hef ég notað þessa aðferð: Setjið sólþurrkuðu tómatana í sigti og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þá (um 500 ml eða svo). Þerrið með eldhúsþurrku.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
19. des. 2010
Frá bær síða,góðar uppskriftir fyrir alla,finn margt fyrir mig og mína takk takk
20. des. 2010
Takk fyrir hrósið Bjarney :)
22. mar. 2012
Fyrir hvað marga er þessi uppskrift?
22. mar. 2012
Fer alveg eftir meðlæti o.fl. Myndi gera ráð fyrir 2-3 hnetusteikum á mann en sumir borða meira, aðrir minna.
21. okt. 2012
Sæl Sigrún.
Get ég notyað eitthvað annað en tofu í þessa uppskrift?
22. okt. 2012
Sæl, þú getur notað þistilhjörtu og/eða sveppi og jafnvel meiri hnetur með.