Linsubaunabuff

Þessi uppskrift kemur úr uppskriftabókinni Grænn kostur Hagkaupa sem ég held mikið upp á. Það er upplagt að búa til fullt af buffum og frysta. Mér finnst best að elda buffin og eiga bara eftir að hita þau upp. Athugið að í upprunalegu uppskriftinni er buffunum velt upp úr raspi og þau svo steikt. Ég blanda raspinu bara saman við og baka í ofni en það má auðvitað fara hina leiðina líka. Uppskriftin er birt með góðfúslegu leyfi Sólveigar á Grænum kosti.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél til að búa til þessa uppskrift (en þið getið líka saxað hráefnið sem á að fara í matvinnsluvélina afar smátt).

Athugið einnig að buffin eru merkt sem hnetulaus en þau innihalda sesamfræ sem sumir hafa ofnæmi fyrir. Auðvelt er að sleppa sesamfræjunum.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta en með fræjum
 • Án hneta
 • Vegan

Linsubaunabuff

Gerir um 12-14 buff

Innihald

 • 2,5 dl soðnar grænar linsubaunir eða 1 dl ósoðnar
 • 500 gr kartöflur, soðnar í mauk, svo krældar og stappaðar lauslega
 • 1 stk rauður chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt
 • 1 stk blaðlaukur, sneiddur gróft
 • 1 stk hvítlauksrif, afhýtt og saxað smátt
 • 1 tsk ferskt engifer, afhýtt og saxað smátt
 • 2 msk ferskt coriander, saxað smátt
 • Smá klípa sjávarsalt (eða Himalaya)
 • Smá klípa svartur pipar
 • 1 msk kókosolía

Raspið (sem ég blanda reyndar bara saman við deigið):

 • 40 g sesamfræ
 • 15 g kókosmjöl
 • 25 g kartöflumjöl
 • 1 tsk karrí

Aðferð

 1. Sjóðið linsubaunirnar samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.
 2. Skrælið og sjóðið kartöflurnar. Kælið og stappið lauslega.
 3. Skerið chili piparinn langsum, fræhreinsið og saxið gróft.
 4. Skerið blaðlaukinn í grófar sneiðar.
 5. Afhýðið hvítlauk og engifer saxið smátt.
 6. Saxið corianderlaufin smátt.
 7. Setjið kartöflur, chili pipar, blaðlauk, hvítlauk, coriander og engifer í matvinnsluvél. Blandið í nokkrar sekúndur þannig að allt blandist vel saman en ekki þannig að verði alveg maukað, skiljið eftir smá til að bíta í. Bætið linsubaununum út í og blandið í nokkrar sekúndur.
 8. Bætið kókosolíunni saman við og blandið í 1-2 sekúndur. Færið blönduna yfir í stóra skál.
 9. Blandið innihaldi raspsins saman í litla skál: sesamfræ, kókosmjöl, kartöflumjöl og karrí.
 10. Blandið raspinu saman við innihaldið í stóru skálinni ef þið viljið ekki steikja buffin upp úr raspinu.
 11. Búið til litlar bollur og fletjið aðeins út svo þau verði flöt og kringlótt og í jafnri stærð.
 12. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og raðið buffunum á plötuna.
 13. Bakið við 200°C í um 20 mínútur á hvorri hlið eða þangað til buffin eru orðin gullin. Einnig má steikja buffin en það bætir töluvert af fitu við uppskriftina.

Gott að hafa í huga

 • Berið fram t.d. með kaldri raita gúrkusósu eða jafnvel kachumbari (afrísku rauðlauks og tómatasalati). Einnig er gott að bera fram salat og hýðishrísgrjón eða bygg með linsubaunabuffunum.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Sleppa má sesamfræjunum í raspinu.