Lasagna með sojakjöti

Þessi uppskrift, er blanda úr 4 uppskriftum að lasagna. Ég fann enga sem ég var alveg nógu ánægð með, sumar voru allt of óhollar, aðrar voru með kjöti, enn aðrar bara með soðnu grænmeti, svo ég prufaði þessa og hún kom okkur bara verulega á óvart!!! Ég er ekki hrifin af pasta sem slíku þ.e. hvítu hveiti, en ég hef stundum fundið spelti lasagna plötur og nota ég þær þá. Spelt pastaplötur fást yfirleitt í heilsubúðum eða heilsudeildum matvöruverslana). Já og í staðinn fyrir óholla ostasósu, þá nota ég kotasælu, rifinn, magran ost og egg (2 egg og 1 eggjahvítu). Ég veit að það er ekki eins og „hvíta sósan" í venjulegu lasagna, en mun hollari fyrir mann!!! Athugið að gott er að láta sojakjötið liggja í marineringu í nokkrar klukkustundir, jafnvel yfir nótt.

Þessi uppskrift er:

 • Án hneta

Lasagna með sojakjöti

fyrir 5-6

Innihald

 • 1 bolli (130 gr) þurrt, óerfðabreytt (GMO free) sojakjötshakk (enska: minced)
 • 1 tsk blandað ítalskt krydd
 • 1 gerlaus grænmetisteningur
 • 1 tsk pipar
 • Nægt sjóðandi vatni til að það blotni vel í sojakjötinu öllu.
 • 500 g lasagnaplötur (helst spelti). Ef plöturnar eru alveg þurrar má forsjóða þær í nokkrar mínútur ekki samt þannig að þær verði mjúkar. Ef notaðar eru ferskar lasagneplötur þarf ekki að sjóða þær.
 • 150 g sveppir, sneiddir
 • 400 gr kotasæla
 • 500 ml krukka pastasósa (t.d. með tómat, basil, lauk og sveppum. Passið bara að pastasósan sé holl þ.e. ekki fitumikil og ekki með neinum sykri). Hægt er að fá góðar, lífrænt framleiddar pastasósur í flestum heilsubúðum
 • 250 g frosið spínat, vatnið kreist úr
 • 1 tsk múskat (enska: nutmeg)
 • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1 tsk svartur pipar
 • 1-2 msk ferskur parmsan ostur, rifinn
 • 400 g magur ostur, rifinn
 • 3 meðalstór egg, (2 heil egg og 1 eggjahvíta)

Aðferð

 1. Látið sojakjötið liggja í nokkrar klukkustundir (jafnvel yfir nótt) í kryddblöndunni þ.e.: í 1 tsk blönduðu ítölsku kryddi, 1 gerlausum grænmetisteningi, 1 tsk pipar og nægu sjóðandi vatni til að það blotni vel í sojakjötinu öllu.
 2. Sneiðið sveppina í þunnar sneiðar.
 3. Kreistið vatnið úr spínatinu.
 4. Rífið magra ostinn og parmesan ostinn.
 5. Blandið pastasósunni saman við sojakjötið (eftir að það hefur drukkið í sig vatnið og marineringuna) og látið standa í a.m.k. 30 mínútur.
 6. Blandið öllu því sem á að fara í ostasósuna saman í lítilli skál þ.e. 2 eggjum, 1 eggjhvítu, 1 bolla af rifnum osti og kotasælunni.
 7. Takið til frekar stórt, djúpt, ferkantað eldfast mót (eða 2 minni) og hafið til reiðu ostasósuna, lasagne plötur, kjötsósuna, spínat og sveppi. Óþarfi er að smyrja formið.
 8. Setjið fyrst þunnt lag af kjötsósu, svo lasagnaplötur, svo ostasósu, því næst spínat og sveppi og að lokum kjötsósu. Endurtakið þangað til allt klárast en endið á kjötsósu og dreifið afganginum af rifna ostinum ofan á.
 9. Að lokum skal krydda með svörtum pipar, múskati og ferskum parmesan.
 10. Hitið í 30-35 mínútur á 190-200°C.

Gott að hafa í huga

 • Það er að sjálfsögðu hægt að búa til sína eigin pastasósu, en það er fljótlegra að kaupa tilbúna og þær eru oft svo ansi góðar þessar lífrænt framleiddu með tómat og basil.
 • Hægt er að kaupa brúnt sojakjöt í London en hef bara séð ljóst á Íslandi. Ef þið eruð á ferðinni í London þá getið þið keypt svoleiðis t.d. í heilsubúðum. Gætið þess bara að kaupa Non-GMO (óerfðabreytt) sojakjöt.

Ummæli um uppskriftina

Syssa
08. jan. 2012

þetta er rosalega gott lasagna.