Kúskúskaka með ávöxtum
Þessa köku geri ég oft (hún er af Grænum kosti og birt með góðfúslegu leyfi Sollu). Kakan er fljótleg því það þarf ekki að baka hana, mjög góð og ótrúlegt en satt, alveg dísæt. Ég fékk þó orð í eyra frá mágkonu minni sem fannst hún alls ekki neitt sæt (hún borðar venjulegar kökur) og ég var búin að lofa henni dísætri, hollri köku. Kannski eru mínir bragðlaukar bara orðnir afbrigðilegir? Jóhannesi finnst hún allavega góð, mömmu hans líka og hún klárast alltaf að lokum svo hún getur ekki verið alvond. Einnig hef ég brugðið þessarri köku upp fyrir 20 svanga hestamenn á hálendinu og hún hvarf á mínútum við miklar og djúpar ánægjustunur (sem hefðu verið hægt að nota í dónalega kvikmynd). Fyrir þessa köku þarf maður nefnilega ekki bakstursofn, bara pott og eld! Það hljómar kannski skringilega að setja kúskús sem er af pastaætt í köku en trúið mér það passar mjög vel í þessa.
Athugið að gott er að nota 25 sm smelluform fyrir þessa köku, en er ekki nauðsynlegt.
Kúskúskaka skreytt með vínberjum, cashew hnetum og möndluflögum
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án hneta
Kúskúskaka með ávöxtum
Innihald
- 1 sm biti ferskt engifer
- 120 g döðlur
- 80 g rúsínur
- Smá klípa salt (Himalaya- eða sjávarsalt)
- 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
- 1 tsk kanill
- 750 ml eplasafi
- 175 g kúskús
- 50 g cashewhnetur
- 40 g möndluflögur
- 50 g græn eða blá vínber, (sæt og steinalaus)
- 2 vel þroskuð kiwi
Aðferð
- Afhýðið engiferið og saxið mjög smátt.
- Saxið döðlurnar smátt og setjið í pott ásamt engiferi, rúsínum, kanil, eplasafa, vanilludropum og salti.
- Látið suðuna koma upp og látið allt malla í um 20 mínútur við vægan hita.
- Hækkið hitann aðeins og setjið kúskúsið út í pottinn. Fylgist vel með því kúskúsið mun tútna út mjög fljótt og þegar það hefur dregið í sig vökvann (og þið farið að heyra hviss hljóð) skuluð þið taka pottinn af hellunni.
- Hellið kúskúsblöndunni út í 25 sm smelluform og þjappið vel. Einnig má setja kúskúsblönduna beint á stóran disk og móta kökuna með sleikju.
- Látið kökuna kólna í um 3 tíma (gott að henda henni út á svalir með röku viskustykki yfir).
- Á meðan kakan kólnar skuluð þið undirbúa það sem á að fara ofan á kökuna.
- Þurrristið cashewhneturnar á heitri pönnu (án olíu). Hitið hneturnar í um 5 mínútur eða þangað til þær eru farnar að taka lit. Setjið til hliðar.
- Þurrristið möndluflögurnar í um 2 mínútur á pönnunni eða þangað til þær taka lit. Gætið þess að þær brenni ekki því þær eru mjög fljótar að brenna. Setjið til hliðar.
- Afhýðið kiwi og sneiðið þunnt.
- Skerið vínberin í helminga. Ef vínberin eru með steinum, skafið þá steinana úr.
- Þegar kakan er orðin köld, setjið hana þá á disk (ef hún var ekki á diski fyrir). Raðið kiwisneiðum ofan á kökuna og því næst vínberjum (snúið kúptu hliðinni upp). Dreifið því næst möndluflögum yfir kökuna og því næst cashewhnetum.
Gott að hafa í huga
- Berið kökuna fram með svolítið af cashewhneturjóma eða þeyttum rjóma/sojarjóma ef þið viljið svoleiðis.
- Mikilvægt er að nota sæt vínber og sæt kiwi. Ef ávextirnir eru ekki nægilega vel þroskaðir eða ekki nægilega sætir, má nota aðra ávexti eins og t.d. kirsuber, mango, ferskjur, perur, banana o.fl.
- Nota má aðrar hnetur á kökuna t.d. brasilíuhnetur, macadamiahnetur og heslihnetur.
- Ef þið hafið ofnæmi fyrir hnetum er einfalt að sleppa þeim.
- Ef þið fáið ekki möndluflögur getið þið notað saxaðar möndlur.