Kúskús með bökuðu grænmeti
28. febrúar, 2003
Mér finnst kúskús gott og sérstaklega ef það er með bökuðu grænmeti eins og tómötum og paprikum. Þetta er léttur réttur og fínn í maga en tekur smátíma að hafa hann til. Hann er þess vegna tilvalinn um helgar t.d. á góðum sumardegi þegar hægt er að borða úti (alltaf gott að vera bjartsýnn he he :)
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Kúskús með bökuðu grænmeti
Fyrir 2
Innihald
- 1 msk kókosolía
- 3 skalottlaukar (litlir, kringlóttir, oft ljósfjólubláir laukar), skornir í 4 báta
- 2 tómatar, skornir í 4 báta
- 1 gul paprika, skorin í 8 báta
- 1 rauð paprika, skorin í 8 báta
- Hálft eggaldin (enska: egg plant, aubergine), skorið í strimla
- Hálf gulrót, skorin í strimla
- Hálfur kúrbítur (enska: courgette, zucchini), skorinn í strimla
- 2 hvítlauksgeirar, marðir
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 0,5 tsk svartur pipar
- 0,5 tsk oregano
- 1 msk kókosolía
- 5 msk vatn
- 200 g kúskús (couscous)
- 40 g svartar ólífur, sneiddar
- 5 tsk sítrónusafi
- 1 msk mynta, fersk (má sleppa, mér finnst mynta í mat vond, mynta, að mínu mati á aðeins heima í tannkremi og hálstöflum)
- 0,5 tsk ólífuolía
Aðferð
- Skerið skalottlaukinn í 4 báta.
- Setjið tómata í skál með sjóðandi heitu vatni og látið þá liggja í 7-10 mínútur. Setjið tómatana í poka og lokið pokanum. Geymið í 5 mínútur. Afhýðið loks tómatana og skerið í 4 báta.
- Skerið paprikurnar í helminga, fræhreinsið og skerið í 8 báta.
- Skerið eggaldin, kúrbít og gulrót í 2 cm þykkar sneiðar langsum og hverja sneið í þykka strimla.
- Setjið niðurskorið grænmetið á ofnplötu klædda bökunarpappír.
- Afhýðið hvítlaukinn og merjið eða saxið mjög smátt.
- Blandið saman kókosolíu, vatni,, mörðum hvítlauk, salti, pipar og oregano og penslið yfir grænmetið.
- Hitið ofninn í 220°C.
- Bakið í miðjum ofni í 30 mínútur eða þar til grænmetið er orðið mjúkt.
- Hrærið í grænmetinu 2-3 sinnum á meðan það er í ofninum.
- Á meðan skuluð þið sjóða kúskús eftir leiðbeiningum á pakkanum (yfirleitt er nóg að setja það í sjóðandi heitt vatn í 3-5 mínútur.
- Blandið myntu (ef notuð), sítrónusafa, ólífuolíu og svolitlu af ristuðu grænmetinu saman við.
- Setjið á fallegan disk og dreifið afganginum af grænmetinu í kring.
- Sneiðið ólífur og saxið myntu gróft.
- Dreifið meira af ferskri myntu ásamt ólífusneiðum yfir réttinn.
Gott að hafa í huga
- Ég hef ekki getað vanið mig á að nota ferska myntu í mat, finnst eitthvað vont bragð af henni, svona eins og ég sé að borða hálsbrjóstsykur eða tyggjó en hún passar sérlega vel með þessum rétti og því sjálfsagt að nota hana ef ykkur finnst hún góð.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
- Nota má maískorn, sveppi, grasker o.fl í þennan rétt í stað þess sem talið er upp hér að ofan.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024