Kúrbítshummus

Þessi uppskrift er úr Rawvolution bókinni minni sem er hráfæðisbók. Hummusinn er léttari en hefðbundinn hummus enda er notaður kúrbítur (zucchini, courgette) í stað kjúklingabauna. Þessi hummus kom bara nokkuð á óvart.

Athugið að uppskriftin er merkt sem án hneta en hún inniheldur maukið sesamfræ (tahini) sem sumir hafa ofnæmi fyrir.

Best er að nota matvinnsluvél fyrir uppskriftina en það má bjarga sér með töfrasprota eða blandara.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta en með fræjum
  • Án hneta
  • Vegan
  • Hráfæði

Kúrbítshummus

Fyrir 3-4 sem meðlæti

Innihald

  • 1 stór kúrbítur (zucchini, courgette), afhýðið með ostaskera og saxið gróft
  • 85 ml tahini (sesammauk)
  • 5 msk sítrónusafi
  • 2 msk ólífuolía
  • 1-2 hvítlauksgeirar, afhýddir
  • 0,5 tsk cumin (ekki kúmen)
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • Vatn til viðbótar ef þarf

Aðferð

  1. Flysjið kúrbítinn með ostaskera.
  2. Afhýðið hvítlauksgeirana og saxið þá gróft.
  3. Setjið kúrbít, tahini, sítrónusafa, ólífuolíu, hvítlauk, cumin og salt í matvinnsluvél. Blandið í nokkrar sekúndur eða þangað til allt er orðið vel maukað en ekki vatnskennt. Ef blandan er of gróf má setja nokkar matskeiðar af vatni út í og blanda í nokkrar sekúndur til viðbótar.
  4. Berið fram með brauði eða niðurskornu grænmeti (t.d. gulrótum, sellerí, agúrkum o.fl.).

Gott að hafa í huga

  • Ef þið eruð í hráfæðispælingum má bera hummusinn fram með t.d. niðurskornu grænmeti, baunaspírum o.fl. Ef þið eruð ekki í slíkum pælingum berið þá fram með hrökkbrauði, hrískexi eða brauði eins og t.d. Chapati brauði eða glúteinlausum brauðvösum.