Kryddbrauð
5. mars, 2003
Mmmmmmm þessi uppskrift er rosalega góð og brauðið er æðislegt alveg glænýtt úr ofninum og pínu klesst. Múskatið gefur sterkt og kryddað bragð. Lyktin er svo góð þegar maður bakar þetta brauð að mann langar helst að loka lyktina í dós til að geta þefað af henni hvenær sem er. Ef þið eruð að búa til kryddbrauðið fyrir börn er gott að minnka kryddmagnið (fer eftir því hvað þau eru hrifin af kryddi). Í öllu falli gefur uppskriftin nokkuð sterkt kryddbragð. Ef þið eruð viðkvæm fyrir kakói, má nota carob í staðinn.
Athugið að þið þurfið matvinnsluvél eða blandara og stórt brauðform fyrir þessa uppskrift.
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Kryddbrauð
Gerir 1 brauð
Innihald
- 120 g haframjöl, grófmalað í 5 sekúndur í matvinnsluvél eða blandara
- 3 msk kakó (eða carob)
- 150 g spelti
- 2,5 tsk vínsteinslyftiduft
- 1 tsk engifer
- 1 tsk negull (e. clove)
- 2 tsk kanill
- 0,5 tsk múskat (e. nutmeg)
- 90 g Rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
- 150-200 ml sojamjólk eða undanrenna
- 125 ml ávaxtamauks án sykurs (barnamatur) t.d. epla-, ferskja eða perumauk
- 3 msk kókosolía
Aðferð
- Setjið haframjölið í matvinnsluvél eða blandara og malið það í um 10 sekúndur. Setjið í stóra skál.
- Sigtið saman í stóru skálina: spelti, vínsteinslyftiduft, kanil, negul, múskat, engifer og kakó. Hrærið vel.
- Hrærið saman kókosolíu, hrásykri og ávaxtamuki og hellið yfir þurrefnin.
- Hellið sojamjólkinni út í, 50 millilítrum í einu og hrærið varlega og ekki of mikið (5-6 hreyfingar eru nóg).
- Deigið á að vera það blautt að það leki af sleif í stórum kekkjum og ekki t.d. það þurrt að hægt sé að hnoða það.
- Klæðið brauðform með bökunarpappír og hellið deiginu út í formið. Gætið þess að það fari vel í hornin.
- Bakið við 180°C í um 35-40 mínútur. Stingið með prjón í miðju kökunnar til að athuga hvort kakan sé nokkuð of blaut. Ef deigklessur þekja prjóninn þurfið þið að baka hana aðeins lengur. Athugið þó að hún má vera svolítið blaut og klesst því hún bakast aðeins eftir að þið takið hana úr ofninum. Gætið þess að baka kökuna ekki of lengi og setjið hana frekar aftur í ofninn. Ef svo illa vill til að þið bakið kökuna of lengi, má rista sneiðarnar í brauðrist.
Gott að hafa í huga
- Þegar kökubrauðið hefur kólnað er best að skera það í sneiðar og frysta hverja sneið fyrir sig. Þannig er auðvelt að kippa einni og einni sneið út og setja t.d. í brauðrist eða bakaraofn.
- Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
- Nota má carob í stað kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Hipp Organic og Organix eru bæði fín merki í barnamat/ávaxtamauki.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
16. jan. 2011
Það eru engar leiðbeiningar um hvenær á að setja sykurinn og lyftiduftið í.
16. jan. 2011
Takk fyrir að láta vita, ég er búin að uppfæra uppskriftina :)
25. júl. 2011
þetta er besta kryddbrauð sem ég hef smakkað.. ever. Annnars vildi ég helst þakka þér kærlega fyrir alla heilu síðuna þína:)
Drengurinn minn greindist nylega með allskyns mataróþol m.a. hveiti,ger,mjólk,tómatar,súkkulaði ofl..Það lýsti sér með þvílíku exemi útum allan líkama og vorum búin að berjast við þetta í næstum 3 ár og vorum búin að reyna allt læknisfræðilegt og lyseðilskylt.. Það tók tvo daga eftir að við komumst að óþolinu og breyttum mataræðinu og exemið er horfið. Síðan þín hefur hjálpað mér endalaust í þessu verkefni mínu.
Kærar kærar þakkir
26. júl. 2011
Gaman að heyra að kryddbrauðið hafi fallið í kramið og enn skemmtilegra að strákurinn þinn hafi fengið bót meina sinna. Það er meiriháttar!!!!!!
17. júl. 2013
Þar sem ég er með soja og laktósa óþol get ég þá ekki notað þá mjólk sem ég þoli ?
18. júl. 2013
Jú ekkert mál, þú getur notað haframjólk, möndlumjólk eða hrísmjólk ef þú þolir hana :)