Kryddaðar hafra-, súkkulaði- og rúsínukökur
Ilmurinn sem kemur í eldhúsið þegar maður bakar þessar er ekki bara lokkandi heldur er eins og maður hafi labbað um allt með jólalykt í úðabrúsa og úðað eins og vitleysingur. Þvílíkur og annar eins ilmur. Ég bakaði þessar einu sinni rétt áður en Jóhannes kom heim og svipurinn á honum þegar hann opnaði dyrnar var eins og á jólaljósi...þvílík hamingja (auðvelt að gleðja karlmenn). Kökurnar eru bara nokkuð hollar því í þeim er holl fita, flókin kolvetni, járn, kalk, vítamín o.fl. Súkkulaði er svo sem aldrei hollustuvara (nema það allra dekksta) en er í góðu lagi í litlu magni...sem smákökur einmitt eru, nema maður borði mörg kíló í einu. Sem væri nú græðgi. En alveg skiljanlegt.
Athugið að þið þurfið matvinnsluvél eða blandara til að fínmala haframjölið. Hafið einnig í huga að þið getið flýtt fyrir ykkur með því að nota heslihnetur sem búið er að rista, afhýða og saxa.
Ljúffengar og kryddaðar smákökur
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
Kryddaðar hafra-, súkkulaði- og rúsínukökur
Innihald
- 60 g heslinetur
- 100 g haframjöl
- 90 g spelti
- 1 tsk kanill
- 1 tsk múskat (e. nutmeg)
- 0,5 tsk engifer
- 0,5 tsk negull (e. cloves)
- 1 tsk vínsteinslyftiduft
- 0,5 tsk salt (Himalaya- eða sjávarsalt)
- 4 msk kókosolía
- 70 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
- 2-4 msk sojamjólk (ef þarf)
- 1 egg
- 50 g sesamfræ
- 50 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði, með hrásykri
- 55 g rúsínur (eða smátt saxaðar döðlur)
Aðferð
- Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í 2-3 mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af. Saxið hneturnar smátt.
- Malið haframjölið í matvinnsluvél eða blandara þangað til fínmalað.
- Sigtið saman í stóra skál; spelti, vínsteinslyftiduft, kanil, múskat, engifer, negul og salt. Hrærið vel.
- Í aðra skál skuluð þið hræra saman egg, kókosolíu og rapadura hrásykurinn. Hrærið mjög vel og hellið út í stóru skálina. Blandið varlega saman með stórri sleif.
- Saxið súkkulaðið gróft og blandið því út í skálina ásamt rúsínum og sesamfræjum. Veltið deiginu aðeins til (ekki hræra mikið).
- Blandið mjólk út í ef þarf en annars má sleppa henni. Deigið á að vera frekar þétt en ekki þannig að það molni.
- Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Rúllið saman jafnar kúlur úr deiginu (um 1 kúfaða matskeið) og setjið á plötuna. Hafið svolítið bil á milli þeirra.
- Þrýstið létt ofan á hverja köku með gaffli (eða flötum lófa). Bakið við 180°C í um 20 mínútur.
- Geymið í lokuðu plastíláti.
Gott að hafa í huga
- Athugið að smákökurnar eru bestar nýbakaðar. Frystið þær smákökur sem þið borðið ekki samdægurs og hitið svo upp síðar. Þær verða eins og nýbakaðar.
- Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
- Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
- Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur stundum mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi.