Kræklinga- og kartöflusúpa

Þessi súpa er saðsöm og góð og ódýr í þokkabót, kostar innan við 1000 krónur fyrir fjóra! Samt sem áður er þetta súpa sem ég yrði glöð að fá á veitingahúsi, svo góð þótti mér hún. Uppskriftin kemur úr bók sem heitir ’Cook’s Library: Potatoes’. Upphaflega áttu að vera 300ml af rjóma og 600 ml af venjulegri mjólk en ég er búin að ’létta’ súpuna aðeins með undanrennu og magrari rjóma. Það er líka upplagt að nota hafrarjóma í súpuna ef þið hafið ekki glúteinóþol. Mér finnst gott að hafa þessa súpu svolítið í þykkari kantinum og notaði ég því aðeins minni vökva en uppskriftin gaf. Það má þó setja minni eða meiri mjólk allt eftir því hvað manni finnst gott. Súpan er rosa góð með nýbökuðu brauði og það er létt hvítlauks-sjávarbragð af henni. Gott er að eiga svolítinn afgang af súpunni daginn eftir, þykkja aðeins með maísmjöli og nota sem pastasósu. Þó uppskriftin virki flókin er hún það alls ekki, sérstaklega ekki ef maður notar niðursoðinn krækling. Kartöflurnar getur maður líka verið búinn að sjóða áður og þá tekur einungis um 20 mínútur að búa til þennan kvöldmat.

Ef þið hafið mjólkuróþol getið þið notað hrísmjólk, haframjólk, möndlumjólk eða sojamjólk í staðinn fyrir léttmjólk og undanrennu.

Athugið að best er að nota matvinnsluvél, blandara eða töfrasprota til að mauka súpuna.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur

Kræklinga- og kartöflusúpa

Fyrir 3-4

Innihald

 • 1 kg ferskur kræklingur eða 425 g í dós (með vökva). Geymið vökvann
 • 3 msk kartöflumjöl eða spelti 
 • 700 ml léttmjólk
 • 2 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 1 tsk kókosolía
 • 1 hnefafylli, steinselja (laufin eingöngu)
 • 300 g kartöflur, skrældar
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt) ef þarf 
 • Smá klípa svartur pipar
 • 125 ml matreiðslurjómi eða hafrarjómi

Aðferð

 1. Ef ferskur kræklingur er notaður þarf að byrja á því að henda þeim sem hafa brotnar skeljar og þeim sem lokast ekki strax um leið og maður bankar í skelina.
 2. Skolið kræklinginn undir köldu vatni og togið „hárin ”af. Skrapið hrúðurkarla og óhreinindi af með beittum hnífi.
 3. Setjið kræklinginn í stóran pott, lokið vel og sjóðið á háum hita í um 4 mínútur eða þangað til allar skeljarnar opnast. Ef einhverjar opnast ekki, hendið þeim þá.
 4. Látið kólna og fjarlægið svo kræklinginn úr skelinni. Sigtið soðvatnið ásamt skeljunum og geymið vatnið.
 5. Ef notaður er kræklingur í dós skal opna dósina og geyma kræklinginn í dósinni ásamt vökvanum.
 6. Blandið saman kartöflumjölinu eða speltinu og nokkrum matskeiðum af mjólk í stóra skál. Hrærið varlega þangað til þykkt deig hefur myndast.
 7. Bætið smávegis til viðbótar af mjólk og hrærið vel.
 8. Afhýðið hvítlaukinn og saxið smátt.
 9. Hitið kókosolíu í stórum potti og steikið hvítlaukinn í nokkrar mínútur. Ef vantar meiri vökva í pottinn notið þá vatn.
 10. Bætið afganginum af mjólkinni út í pottinn og hitið varlega.
 11. Hrærið kartöflumjölsblöndunni út í með sósupískara. Lækkið hitann í miðlungshita og látið krauma í 15 mínútur eða þangað til súpan þykknar aðeins.
 12. Skrælið kartöflurnar og skerið í smáa bita.
 13. Setjið helminginn af kartöflunum út í súpuna og látið malla í 5-7 mínútur.
 14. Saxið steinselju, setjið út í og hitið í 2-3 mínútur.
 15. Látið súpuna kólna aðeins og blandið í matvinnsluvél, blandara eða notið töfrasprota þangað til súpan er vel maukuð.
 16. Setjið súpuna aftur í pott og bætið kræklingnum og kræklingasafanum saman við ásamt vökvanum (50 ml af soðvatninu ef notaður var ferskur kræklingur).
 17. Setjið afganginn af kartöflunum saman við.
 18. Saltið og piprið eftir smekk.
 19. Látið malla í um 5-7 mínútur eða þangað til súpan er orðin vel heit og kartöflurnar soðnar.
 20. Bætið matreiðslurjóma út í og hitið að suðu.
 21. Skreitið með ferskri steinselju.

Gott að hafa í huga

 • Berið fram með snittubrauði eða öðru góðu brauði.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
 • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
 • Ef afgangur er af matreiðslurjómanum má frysta hann í ísmolabox og nota síðar, t.d. í svona súpur.
 • Nota má hafrarjóma í staðinn fyrir matreiðslurjóma. Ég er hrifin af Oatly merkinu.
 • Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, sojamjólk eða haframjólk í staðinn fyrir léttmjólk.
 • Nota má kartöfluafganga í súpuna og skal þá setja kartöflurnar út í síðast.
 • Mauka má allar kartöflurnar ef þið viljið mýkri áferð á súpuna.