Korma grænmetiréttur með raita gúrkusósu

Upplagður indverskur grænmetisréttur fyrir alla fjölskylduna. Fullur af vítamínum, próteinum, kalki, járni&;og trefjum. Útbúa má gúrkusósuna með dags fyrirvara til að flýta fyrir undirbúningi.

Athugið að ef þið finnið ekki möndlumjöl, þurfið þið matvinnsluvél eða blandara til að mala möndlurnar.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Korma grænmetiréttur með raita gúrkusósu

Fyrir 3-4

Innihald

Grænmetið:

  • 1 tsk kókosolía
  • 150 g blómkál, léttsoðið og í litlum sprotum
  • 150 g spergilkál (brokkolí), léttsoðið og í litlum sprotum
  • 150 g kartöflur, léttsoðnar og í litlum bitum
  • 150 g gulrætur, léttsoðnar og í litlum sneiðum
  • 150 g kúrbítur (zucchini, courgette), skorið í litla bita
  • 2 laukar, afhýddir og sneiddir fínt
  • 5 msk corma curry powder (Korma karrí krydd)
  • 300 ml vatn
  • 1 gerlaus grænmetisteningur
  • 2 tsk tómatmauk (puree)
  • 3 tsk agavesíróp
  • 125 g tómatar, saxaðir (má nota úr dós)
  • 125 ml léttmjólk
  • 150 ml jógúrt
  • 2 msk maísmjöl, hrært út í sojamjólkinni
  • 250 g franskar baunir (enska: french beans), skornar í 1 sm langa bita
  • 30 g möndlumjöl (eða malaðar möndlur)
  • 20 g möndlur, þurristaðar á pönnu

Raita gúrkusósa:

  • 1 meðalstór gúrka
  • 1 tsk cumin fræ, heil (ekki kúmen)
  • 500 ml AB mjólk eða hrein jógúrt
  • 1 hvítlauksrif, kraminn eða saxaður smátt
  • 2 msk ferskt coriander, saxað smátt
  • Smá klípa cayenne pipar eða paprika

Aðferð

Aðferð - grænmetið:

  1. Skrælið kartöflu og gulrætur. Skerið gulræturnar í sneiðar og kartöfluna í meðalstóra bita.
  2. Brjótið blómkál og spergilkál í sprota.
  3. Sneiðið kúrbítinn í frekar stórar sneiðar.
  4. Sjóðið kartöflur, gulrætur, blómkál og spergilkál í um 7-10 mínútur eða þangað til grænmetið er farið að mýkjast aðeins en ekki orðið mjúkt.
  5. Skerið frönsku baunirnar í 1 sm sneiðar.
  6. Afhýðið lauk og saxið smátt.
  7. Hitið pönnu (án olíu) og þurrristið möndluflögurnar í 5-10 sekúndur eða þangað til þær taka lit. Setjið til hliðar.
  8. Hitið kókosolíu á stórri pönnu. Bætið lauknum út á pönnuna og hitið í u.þ.b. 6 mínútur eða þangað til laukurinn er orðinn mjúkur. Hrærið korma karríinu saman við og hitið í aðrar 2 mínútur. Ef vökva vantar á pönnuna notið þá vatn.
  9. Bætið við vatninu, grænmetisteningnum, tómatkraftinum, agavesírópinu, tómötunum, mjólkinni, jógúrtinni og smávegis af salti. Hrærið vel og látið sjóða í um 10 mínútur.
  10. Bætið baununum, kúrbítnum, gulrótunum, kartöflunum, blómkálinu og spergilkálinu saman við og hitið í 20 mínútur.
  11. Bætið möndlumjölinu við og látið hitna í nokkrar mínútur.
  12. Dreifið þurrristuðu möndlunum yfir réttinn.
  13. Berið fram með hýðishrísgrjónum og raita gúrkusósunni.

Aðferð - Raita gúrkusósan:

  1. Flysjið gúrkuna og skerið langsum í 1 sm lengjur og svo í litla bita.
  2. Þurrkið vökva með þurrku.
  3. Ristið cumin fræin í nokkrar sekúndur á heitri pönnu (án olíu).
  4. Afhýðið hvítlauk og saxið smátt.
  5. Saxið corianderlaufin smátt.
  6. Hrærið saman cumin, hvítlauk og coriander í skál.
  7. Blandið gúrkunni saman við og kryddið með papriku eða cayenne pipar.
  8. Kælið áður en þið berið raita sósuna fram.

Gott að hafa í huga

  • Það má nota alls kyns grænmeti í þennan rétt, um að gera að prófa sig áfram. Einnig má nota kjúklinga- og nýrnabaunir
  • Það er gott að bera fram chapati brauð með þessum rétti.
  • Franskar baunir eru langar og mjóar baunir, sem líta út eins og stönglar þ.e. ekki með eiginlegum „baunum” innan í og maður getur borðað þær hráar.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Ef þið fáið ekki möndlumjöl, setið þá möndlur eða möndluflögur í augnablik í matvinnsluvél eða blandara. Blandið þangað til fínkornótt án þess að verði olíukennt.
  • Korma karrí krydd fæst í stærri matvöruverslunum. Nota má korma sósur líka og þarf þá að minnka annan vökva aðeins. Kaupið korma sósur aðeins úr heilsubúð (eða a.m.k. lífrænt framleidda).
  • Nota má sojajógúrt í staðinn fyrir AB mjólk og hreina jógúrt.
  • Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, sojamjólk eða haframjólk í staðinn fyrir léttmjólk.