Konfekt

Þessi uppskrift af konfekti er blanda úr nokkrum uppskriftum því eitt skiptið ætlaði ég að búa til hollt konfekt og var með 2 uppskriftir fyrir framan mig en ruglaðist aðeins. Útkoman er alveg hreint ágæt. Gera má konfektið glúteinlaust með því að nota hrískökur í staðinn fyrir haframjölið.

Athugið að matvinnsluvél þarf til að útbúa þessa uppskrift.

 


Konfekt sem er upplagt á jólunum og alla hina dagana líka!

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án glúteins

Konfekt

Gerir um 30 konfektmola

Innihald

  • 25 g döðlur (ef mjúkar þarf ekki að leggja þær í bleyti)
  • 25 g gráfíkjur
  • 50 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði eða carob (með hrásykri)
  • 1 banani, vel þroskaður
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 1 tsk kanill
  • 3 msk kakó eða carob
  • 40 g haframjöl (eða hrískökur)
  • 30 g kókosmjöl
  • Nokkrar matskeiðar appelsínusafi (ef þarf)
  • Kókosmjöl, kakónibbur, söxuð trönuber, saxaðar heslihnetur o.fl. til að velta konfektinu upp úr.

Aðferð

  1. Saxið döðlurnar gróft og leggið í bleyti í klukkustund. Athugið að ef þær eru mjúkar þarf ekki að leggja þær í bleyti og má saxa þær strax.
  2. Snúið stubbinn af gráfíkjunum, saxið fíkjurnar gróft og leggið í bleyti í klukkustund.
  3. Saxið súkkulaðið smátt.
  4. Hellið vatninu af og setjið fíkjur, döðlur og banana í matvinnsluvél. Blandið í um 1 mínútu eða þangað til nokkuð vel maukað.
  5. Bætið vanilludropum, kanil og kakói út í og blandið í 10 sekúndur. Setjið í stóra skál.
  6. Bætið haframjöli, súkkulaði og kókosmjöli út í skálina og hrærið mög vel.
  7. Setjið aftur í matvinnsluvélina í nokkrum skömmtum og maukið í um 5 sekúndur hvern skammt. Gætið þess að deigið verði ekki að algjöru mauki en það á að límast vel saman ef klipið saman með fingrunum. Ef deigið er of þurrt má setja svolítinn appelsínusafa eða eplasafa út í deigið og hræra aðeins.
  8. Kælið deigið í um klukkustund.
  9. Mótið litlar kúlur og veltið upp úr kókosmjöli, kakónibbum, trönuberjum, heslihnetum o.fl.
  10. Geymist í nokkra mánuði í frysti en einnig í 1-2 vikur, í plastboxi í ísskáp.

Gott að hafa í huga

  • Deigið getur verið blautt eða þurrt allt eftir því t.d. hvort bananinn er stór eða ekki. Ef ykkur finnst deigið blautt skuluð þið setja það inn í ísskáp og eftir klukkutíma skoðið þá hvort það er enn þá of blaut til að móta úr því kúlur. Ef það er of blautt, bætið þá aðeins meira af haframjöli við ásamt aðeins meira af kakói og kókosmjöli. Setjið svo aftur inn í ísskáp í um 30 mínútur.
  • Hægt er að velta konfektinu upp úr kókosmjöli, sesamfræjum, möluðum möndlum, carobdufti, kakói, kakónibbum, hökkuðum möndlum, heslihnetum o.s.frv.
  • Nota má þurrkaðar aprikósur (þessar brúnu, lífrænt ræktuðu) á móti döðlunum.
  • Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
  • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur stundum mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi.