Kókoskúlur
Ég hef fengið ótal fyrirspurnir í gegnum tíðina varðandi kókoskúlur. Þær eru greinilega eitthvað sem fólki þykir ómissandi. Ég get ekki sagt að ég hafi borðað þær oft þegar ég var yngri en man þó eftir stórum kókoskúlum í bakaríinu. Ég hef gert margar tilraunir og held að ég hafi dottið niður á þá uppskrift sem mér þykir koma næst þeim upphaflegu (svona í minningunni). Það að borða ekki hefðbundnar kókoskúlur þýðir að ég þurfti að spyrja í kringum mig varðandi bragð og áferð. Jóhannes mundi vel hvernig kókoskúlur, þessar hefðbundnu voru á bragðið og gat leiðbeint mér áfram. Svo voru gerðar tilraunir á vinum og vandamönnum og útkoman er að þeirra mati bara nokkuð góð! Athugið að þið þurfið að mala haframjölið í blandara eða matvinnsluvél og sömuleiðis súkkulaðið. Athugið einnig að kókosolían á að vera mjúk en ekki fljótandi svo best er að leyfa henni að standa við stofuhita í nokkrar klukkustundir ef þið getið. Þessar litlu kúlur eru fullkomnar með kaffinu!
Kókoskúlur slá alltaf í gegn
Þessi uppskrift er:
- Án eggja
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
- Vegan (fyrir jurtaætur)
Kókoskúlur
Innihald
- 60 g haframjöl, fínmalað
- 50 g mjólkursúkkulaði (með hrásykri)
- 50 g dökkt súkkulaði (með hrásykri)
- 2 msk kakó
- 3 msk kókosmjöl + til að velta upp úr
- 30 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
- 40 g kókosolía (mjúk, ekki fljótandi)
- 1/2 msk vanilludropar (úr heilsubúð)
- 5 msk sojamjólk (gæti þurft minna eða meira)
- Kókosmjöl til að velta kúlunum upp úr
Aðferð
- Setjið haframjölið í matvinnsluvél eða blandara og blandið í nokkrar sekúndur þangað til haframjölið er orðið fínmalað. Setjið í stóra skál.
- Brjótið súkkulaðið í mola og setjið í matvinnsluvél eða blandara. Blandið í nokkrar sekúndur þangað til súkkulaðið er orðið nokkuð smátt saxað. Setjið í stóru skálina.
- Bætið kakói, kókosmjöli (3 msk) og hrásykri út í skálina og hrærið vel.
- Hrærið saman kókosolíu og vanilludropum og setjið út í skálina. Hrærið vel.
- Bætið eins miklu við af sojamjólk og þið teljið þurfa. Blandan á að vera frekar blaut án þess að loða við fingurna. Þið eigið að geta klipið blönduna saman með fingrunum og hún á að klessast saman. Gott er að nota hrærivél en ekki nauðsynlegt.
- Ef blandan er of mjúk getið þið látið hana harðna í um 30 mínútur í ísskáp.
- Útbúið litlar kúlur og veltið upp úr kókosmjöli. Geymið í plastboxi í ísskáp eða frysti.
Gott að hafa í huga
- Gera má stærri kúlur og færri.
- Nota má mjólkursúkkulaði eingöngu í staðinn fyrir dökkt súkkulaði.
- Nota má hvaða mjólk sem er í staðinn fyrir sojamjólkina.
Ummæli um uppskriftina
20. mar. 2011
Vil bara benda á að kókos er unnið úr kókosHNETUM og þeir sem eru með bráðaofnæmi við hnetum mega yfirleitt ekki borða kókos, svo það er ekki hægt að segja að þessi uppskrift innihaldi engar hnetur.
20. mar. 2011
Sæl Guðrún
KókosHNETA er í reynd ekki hneta heldur stærsta FRÆ heims svo uppskriftin er hnetulaus og er merkt sem slík. Þeir sem hafa bráðaofnæmi eru sjaldnast með ofnæmi fyrir kókoshnetum af öllum þeim fræum og hnetum sem náttúran gefur en það er auðvitað undir þeim sem hafa ofnæmi komið að athuga vel allar uppskriftir.
20. mar. 2011
Þessar eru himneskar
22. mar. 2011
NAMM þessar eru æði. Elísabet mín (3 ára) var alveg himinlifandi að fá að búa til kúlur og rúlla upp úr kókos og auðvitað það besta... fá að borða þær! :)
22. mar. 2011
Gaman að heyra Berta og sérstaklega að yngstu kynslóðinni hafi líkað þær.....börnin eru jú dómhörðustu einstaklingarnir :)
22. mar. 2011
Þetta er gjörsamlega eitthvað fyrir góða kokka sem vilja búa til eitthvað sætt undir tönn en samt ekki of óhollt. Ég get ekki hætt að borða þetta!
23. mar. 2011
Mikið er gaman að heyra það Márus og takk fyrir að deila þessu með okkur þannig að fleiri framtíðarkokkar fái sjálfstraust til að prófa líka :) Gangi þér sem best Márus!
27. mar. 2011
Þessar eru alveg hreint æðislegar! Þær verða alveg extra sparilegar með því að nota súkkulaði :)
27. mar. 2011
Frábært að heyra Ingibjörg...Það má segja að þetta séu 'kókoskúlur í sparifötunum' :)
21. apr. 2011
ummmm, er búin að búa til 4falda uppskrift í DAG, þetta klárast bara strax (erum 5 hér sem elskum þessar bollur) Ætlaði sko að reyna að eiga nokkrar bollur um páskahelgina sem er nú að bresta á.... (bollurnar komnar í frost og búið að fela einn bauk inní ísskáp , en auðvita veit ég hvar þær eru og ekki er ég barnanna best !
Takk fyrir Sigrún ;)
21. apr. 2011
He he, gaman að heyra og svo er bara að fá sér lás á boxið :)
26. apr. 2011
Haha já þú meinar... helst þarf ég að ganga með bollu-boxið á mér svo sonurinn klári þær ekki, en þá aftur á móti klára ÉG þær og er snögg að því.
03. maí. 2011
Þessar eru ennþá betri en kókoskúlur úr bakaríum! Svo gaman að geta borðað svona gott nammi með góðri samvisku :)
03. maí. 2011
Gaman að heyra Ásta, njóttu vel :)
22. apr. 2013
Veistu hvað var í kókoskúlunum í bakaríunum I gamla daga.? Ég fékk þær upplýsingar að í þær væru notaðar kökur sem hefðu ekki selst og voru orðnar dálítið þurrar. Þær voru muldar smàtt og voru aðal efnið í kókosbollunum. Það finnst mér trúlegt og bara ekkert að því, nema hollustan er kannski ekki uppá marga fiska, frekar en í mörgu öðru "bakaríisgúmmelaði".
22. apr. 2013
Sæl Magga Rósa. Ég get því miður ekki varpað ljósi á innihald bakarískókoskúla....hef bara ekki hugmynd! :)