Kókosbrauðbollur með pistachio- og heslihnetum

Þetta er rosa fín uppskrift sem við Jónsi vinur minn bjuggum til á Skóló eitt kvöldið (þ.e. í íbúðinni á Skólavörðustíg). Þar dvaldi ég alltaf í viku, mánaðarlega í 2 ár meðan ég flaug heim frá London til að vinna á Íslandi). Við áttum hnetur, kókos, spelti og eitthvað meira og við þurftum að búa til eitthvað úr því þar sem ég týmdi ekki að henda hráefninu áður en ég færi aftur til London. Sko.. nýbakaðar bollur með osti innan í (sem bráðna við hitann af bollunum þegar þær eru nýkomnar út úr ofninum) NAAAAAMMMMMM. Uppskriftin sjálf er sáraeinföld.


Kókosbrauðbollur með pistachio hnetum

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Kókosbrauðbollur með pistachio- og heslihnetum

Gerir um 12 bollur

Innihald

  • 250 g spelti
  • 1 mtsk vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 50 g pistachiohnetur án hýðis og ósaltaðar, saxaðar gróft
  • 50 g heslihnetur, ristaðar, afhýdar og saxaðar gróft (oft hægt að kaupa tilbúnar, saxaðar í pokum)
  • 80 g sesamfræ
  • 30 grl kókosmjöl
  • 300 ml sojamjólk. Einnig má nota AB mjólk eða hreina jógúrt
  • 1 msk sítrónusafi
  • 100 ml  kókosmjólk (enska: Coconut milk)
  • 100 ml soðið vatn

Aðferð

  1. Blandið saman í stóra skál; spelti, vínsteinslyftidufti, kókosmjöli, sesamfræjum, salti og söxuðu hnetunum.
  2. Blandið saman 50 ml af sojamjólk og sítrónusafanum. Látið standa á borðinu þangað til mjólkin fer að mynda kekki (í um 15 mínútur). Hellið svo út í stóru skálina.
  3. Bætið afganginum af sojamjólkinni ásamt kókosmjólkinni út í skálina.
  4. Hrærið varlega (aðeins 8-10 sinnum) og gætið þess að hræra ekki of mikið.
  5. Bætið vatni við ef þarf. Gætið þess að deigið verði ekki of blautt. Deigið á að vera þannig að það hægt sé að móta bollur með góðu móti án þess að hægt sé að hnoða það.
  6. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu.
  7. Skiptið deiginu í 12 hluta og mótið bollur. Einnig er gott að nota ískúluskeið. Setjið bollurnar á bökunarpappírinn.
  8. Bakið við 180-200°C í um 25 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Hægt er að nota cashewhnetur, Brasilíuhnetur eða heilar, saxaðar möndlur í staðinn fyrir heslihnetur.
  • Einnig má setja sólblómafræ, hörfræ, svört sesamfræ, birkifræ og ýmislegt annað í stað sesamfræjanna.
  • Ef þið kaupið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita pönnu á fullum hita og rista hneturnar í 2-3 mínútur þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af. Best er að nota ekki hýðið í uppskriftina því það gefur beiskt bragð.
  • Ef þið finnið aðeins saltaðar pistachiohnetur er gott að skola þær upp úr köldu vatni í nokkrar mínútur og þerra svo með þurrku.
  • Í staðinn fyrir sojamjólk getið þið einnig notað haframjólk, hrísmjólk, möndlumjólk eða undanrennu.
  • Ef þið notið súrmjólk, AB mjólk eða jógúrt má sleppa sítrónusafanum.