Kókos- og laxasúpa með hrísgrjónanúðlum
20. maí, 2007
Þessi súpa er frábær þegar maður á afgang af laxi í frystinum. Hún er líka mjög holl því það er holl fita í laxinum sem er okkur nauðsynleg. Ég notaði hrísgrjónanúðlur en einnig má nota soba núðlur (úr bókhveiti) eða venjulegar núðlur fyrir þá sem þola glútein. Uppskriftin kemur úr lítilli bók sem ég á sem heitir einfaldlega Soup. Ákaflega mild og bragðgóð súpa, upplögð á köldu vorkvöldi. Súpan hentar þeim sem hafa glúteinóþol því hrísgrjónanúðlur innihalda að öllu jöfnu ekki glútein. Athugið að gott er að nota matvinnsluvél fyrir þessa uppskrift en einnig má nota töfrasprota.
Kókos- og laxasúpa með núðlum
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
Kókos- og laxasúpa með hrísgrjónanúðlum
Fyrir 3-4
Innihald
- 2 stilkar sítrónugras (enska: lemon grass)
- 2 hvítlauksgeirar, saxaðir gróft
- 1 stór laukur, saxaður gróft
- 1 tsk turmeric
- 1 tsk paprika (eða chili pipar ef þið viljið sterkari súpu)
- 1 tsk kókosolía
- 400 ml kókosmjólk (enska: coconut milk)
- 300 ml sjóðandi vatn
- 1 gerlaus grænmeteningur
- 0,5 tsk fiskisósa (Nam Plah)
- 225 g roðhreinsaður lax, í 2,5cm bitum
- 125 g hrísgrjóna- eða soba núðlur (úr bókhveiti)
- Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 200 g baunaspírur (má sleppa)
- Ferskt coriander til að skreyta með (má sleppa)
- 1 límóna í sneiðum til að skreyta með (má sleppa)
Aðferð
- Fjarlægið ytri blöðin af sítrónugrasinu og saxið neðri helminginn (sem er breiðari en sá efri). Ætti að vera um 2 cm bútur. Fleygið afgangnum eða notið síðar (geymist vel á þurrum og köldum stað.
- Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið gróft.
- Setjið sítrónugrasið í matvinnsluvél ásamt lauknum, hvítlauknum, turmericinu og papriku og blandið í um 10 sekúndur eða þangað til allt er orðið vel maukað. Einnig má nota töfrasprota.
- Hitið kókosolíu á djúpri pönnu eða grunnum potti. Bætið vatni við ef þarf meiri vökva.
- Setjið maukið á pönnuna og hitið varlega í 5 mínútur eða þangað til allt fer að ilma. Hrærið stöðugt í maukinu.
- Bætið kókosmjólkinni saman við ásamt grænmetissoðinu og fiskisósunni og látið suðuna koma upp.
- Lækkið á hitanum, setjið lokið á pönnuna og látið malla í 15 mínútur.
- Bætið laxabitunum saman við og saltið eftir smekk.
- Látið malla í um 5-10 mínútur með lokinu á eða þangað til fiskurinn er tilbúinn. Saltið eftir smekk.
- Á meðan skuluð þið sjóða núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum.
- Sigtið núðlurnar og skolið með köldu vatni.
- Ef baunaspírurnar eru notaðar skal setja þær út í súpuna og láta malla í nokkrar mínútur.
- Skiptið núðlunum á milli diskanna og hellið súpunni yfir með ausu.
- Skreytið með corianderlaufum og berið fram með límónu sneiðum.
Gott að hafa í huga
- Nota má alls kyns núðlur í réttinn og eru soba núðlur upplagðar. Fyrir þá sem þola glútein er gott að nota udon núðlur, flatar núðlur, speltnúðlur o.fl.
- Nota má silung í stað þess að nota lax. Einnig má nota rækjur eða kjúkling.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
- Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
- Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
- Ef þið roðflettið laxinn getið þið grillað laxaroðið og borða sem snakk eða sett út á salat.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024