Kókos- og hvítlauksmauk (coconut and garlic chutney) frá Tanzaníu

Eða eiginlega ekki frá Tanzaníu heldur frá Indlandi því kókosmauk er mikið notað þar. Ég smakkaði þetta meðlæti hins vegar á indverskum veitingastað í Moshi, Tanzaníu. Moshi er við rætur Kilimanjaro sem er drottning fjallanna í Afríku og gnæfir upp fyrir skýin þegar vel liggur á henni. Þessi indverski staður heitir Taj Mahal (ekki frumlegasta nafnið!) og er skyndibitastaður í orðsins fyllstu merkingu því 1 mínútu eftir að maður þylur upp pöntun er maturinn kominn á borðið og þetta er sko enginn ruslmatur hitaður í örbylgjunni. Ég veit ekki alveg hvernig þeir fóru að þessu en við vorum öll orðin svöng svo við vorum vel sátt við hraðann. Maturinn bragðaðist afar vel og var með áhrifum úr Swahili matargerð. Ein innfædd Kenyakona (reyndar indversk) var með okkur í för og hún gat sagt mér hvað var í innihaldinu á chutneyinu. Ég páraði það niður og við drifum okkur svo á vit frekari ævintýra. Þeir göngugarpar sem eru á leið upp Kilimanjaro gista yfirleitt í Moshi og ég mæli með þessum stað við þá sem eru að koma niður af fjallinu. Eitthvað til að hlakka til og ég lofa fljótri afgreiðslu! Best er að nota matvinnsluvél eða töfrasprota fyrir þessa uppskrift.

Athugið að kókoshnetur fást í stærri matvöruverslunum en þið getið notað kókosflögur/kókosmjöl og kókosmjólk í staðinn.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Kókos- og hvítlauksmauk (coconut and garlic chutney) frá Tanzaníu

Sem meðlæti fyrir 4-5

Innihald

 • 50 g fersk kókoshneta, skafin í flögur (eða 50 g kókosflögur og 2 msk kókosmjólk)
 • Fjórðungur grænn chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt
 • 1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt
 • 1 tsk kókosolía
 • 1 tsk brún sinnepsfræ (enska: mustard seeds)
 • 0,5 tsk agavesíróp (hér á að nota tamarindmauk en það fæst ekki svo víða)

Aðferð

 1. Hitið kókosolíu á lítilli pönnu, notið vatn ef þarf meiri vökva.
 2. Skerið chili piparinn bútinn langsum, skafið fræin úr og saxið piparinn.
 3. Afhýðið hvítlaukinn og saxið smátt.
 4. Steikið hvítlauk og chili í 3-4 mínútur. Ekki samt þannig að verði brúnt, heldur lint.
 5. Hitið sinnepsfræin í 2 mínútur á pönnunni.
 6. Maukið kókoshnetukjötið eða kókosflögurnar og kókosmjólkina í matvinnsluvél þangað til allt er vel maukað.
 7. Bætið agavesírópinu út í og blandið áfram í nokkrar sekúndur.
 8. Notið vatn eða meiri kókosmjólk ef þarf meiri vökva.
 9. Bætið chili, hvítlauk og sinnepsfræjum saman við og blandið áfram í nokkrar sekúndur.
 10. Berið fram strax.
 11. Ef maukið er kælt þarf að taka það úr ísskáp um 1-2 klukkustundum áður en á að bera það fram því það harðnar í ísskápnum.
 12. Notið sem meðlæti með indverskum mat, baunaréttum og grilluðum mat.

Gott að hafa í huga

 • Maukið geymist í allt að viku í ísskápnum, í vel lokuðu íláti.
 • Kókosflögur fást í heilsubúðum (og stærri matvöruverslunum) en nota má kókosmjöl í staðinn.