Kjúklingur með grænmeti, núðlum og cashewhnetum (og sósu)

Það er upplagt að gera þessa uppskrift vel stóra svo maður geti haft hana í matinn tvo daga í röð (og jafnvel í nesti þriðja daginn!). Það er nefnilega smá maus við að skera grænmetið og svoleiðis og mér finnst alltaf best með svoleiðis mat að útbúa þannig að sé góður afgangur. Þetta er annars mjög saðsamur og hollur réttur og er uppskriftin úr fínni kjúklingabók sem ég á. Ég reyndar set ekki 5 DESILÍTRA af matarolíu eins og á að gera (trúið þið því að maður eigi að setja allt þetta magn???). Það er nefnilega þannig með flestar núðlur (og flest pasta) að það losar sterkju þegar það hitnar og gerir það „sleipt" og því þarf ekki að mínu mati alla þessa olíu.

Athugið að þið þurfið stóra pönnu, helst wok til að útbúa þessa uppskrift en nota má venjulega, stóra pönnu. Upplagt er að nota afgangskjúkling í þessa uppskrift. Í staðinn fyrir kjúkling má nota rækjur eða tofu og skipta má út grænmetinu fyrir annað grænmeti.

Fyrir þá sem hafa hnetu- og fræofnæmi má sleppa cashewhnetunum og sesamolíunni.


Litríkur og hollur kjúklingaréttur með sósu

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án hneta

Kjúklingur með grænmeti, núðlum og cashewhnetum (og sósu)

Fyrir 4-5

Innihald

  • 375 g þykkar hrísgrjónanúðlur eða aðrar núðlur sem ykkur finnst góðar
  • Hálfur stór kjúklingur, helst grillaður
  • 1 stór gulrót
  • 2 paprikur (rauð og gul)
  • 175 g mangetout (flatar, grænar belgbaunir sem maður getur borðað í hýðinu)
  • 175 g baby mais 
  • 75 g cashewhnetur
  • 2 vorlaukar
  • 1 tsk sesamolía
  • 1 msk kókosolía
  • Fersk coriander lauf til að skreyta með (má sleppa)

Fyrir sósuna:

  • 450 ml af vatni
  • 1 gerlaus grænmetisteningur
  • 1,5 msk maísmjöl (eða kartöflumjöl eða arrow root)
  • 6 msk tamarisósa
  • 1 tsk Tabasco sósa (eða klípa chilipipar eða cayenne pipar )
  • 5 stevíadropar eða 2 msk agavesíróp
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt eða marinn
  • ferskt engifer, biti á stærð við jarðarber

 

Aðferð

  1. Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum og sigtið allt vatn frá. Látið í nokkrar sekúndur undir kalt, rennandi vatn. Setjið til hliðar.
  2. Hitið pönnuna (án olíu) og þurrristið cashewhneturnar í nokkrar mínútur eða þangað til þær eru orðnar gullbrúnar. Setjið til hliðar.
  3. Undirbúið sósuna: Setjið 450 ml af vatni í lítinn pott ásamt grænmetisteningnum og hitið aðeins þannig að teningurinn leysist upp. Blandið saman maísmjöli, tamarisósu, tabasco sósu og stevíadropum (eða agavesírópi) í litla skál og hellið í pottinn. Afhýðið engifer og hvítlauk og saxið smátt. Setjið allt í pottinn og hitið í um 30 mínútur við vægan hita eða þangað til sósan fer aðeins að þykkna aðeins.
  4. Undirbúið nú annað hráefni: Ef þið notið ekki grillaðan kjúkling, hitið þá 1 tsk kókosolíu ásamt vatni á pönnu. Steikið kjúklinginn (skinnið ekki notað). Kælið og rífið kjötið í strimla. Setjið til hliðar.
  5. Afhýðið gulrótina og skerið í mjóa strimla.
  6. Skerið paprikur í helminga og fræhreinsið. Skerið svo í mjóar ræmur.
  7. Saxið vorlaukana smátt (ljósgrænu og dökkgrænu hlutarnir notaðir).
  8. Hitið wok pönnu eða stóra pönnu þangað til hún verður brennandi heit.
  9. Takið til allt hráefni sem á að fara á pönnuna og setjið í litlar skálar nálægt eldavélinni.
  10. Setjið 1 msk af kókosolíu á pönnuna og hitið vel. Það ætti að rjúka úr pönnunni.
  11. Hitið gulrótarstrimlana í um 2 mínútur. Bætið papriku, mangetout og babymais saman við og hitið vel. Ef vantar vökva, notið þá vatn.
  12. Hrærið í sósunni og hellið henni yfir pönnuna. Sjóðið í um 3-4 mínútur.
  13. Bætið núðlunum og kjúklingnum við og hitið vel í 3 mínútur.
  14. Bætið cashewhnetunum við og blandið öllu vel saman.
  15. Berið fram í djúpum diskum ásamt prjónum. Hellið nokkrum dropum af sesamolíu yfir hverja skál. Skreytið með corianderlaufum ef þið viljið.

Gott að hafa í huga

  • Það er hægt að sleppa kjúklingnum og setja t.d. rækjur, kúrbít, eggaldin, sveppi (ferska eða þurrkaða) eða marinerað, stíft tofu.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum (og stærri matvöruverslunum). Einnig má nota venjulega grænmetisteninga.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.

Ummæli um uppskriftina

Björg
10. mar. 2011

Eldaði þetta í kvöld. Mjög gott einfalt og nokkuð fljótlegt. Takk fyrir mig.

sigrun
10. mar. 2011

Gaman að heyra Björg, takk fyrir að deila með okkur :)

Dana Jóna
13. mar. 2011

Ég ætla að byrja á að þakka fyrir þessa frábæru síðu:-) en ég prufaði þessa uppskrift og hún er bæði fljótleg og rosalega
góða:-)það voru allir mjög ánægðir og saddir sem stóðu upp frá mínu borði:-)
svo takk fyrir mig:-)

sigrun
13. mar. 2011

Takk Dana og gaman að heyra að maturinn hafi bragðast vel :)

Sigurbjörg
21. jan. 2013

Ég gerði þessa um daginn, sleppti núðlunum og kjúklingnum og setti tófú í staðinn. Það var rosalega gott :) Ég er alltaf að elda eða baka eitthvað frá þér, takk fyrir mig!

sigrun
21. jan. 2013

Gaman að heyra Sigurbjörg og takk fyrir að deila. Ég nota einmitt tófú líka :)