Kjúklingasumarsalat

Eins og nafnið ber með sér, þá er eiginlega skylda að borða þetta kjúklingasalat úti, á góðum sumardegi þegar sólin er alveg að fara að setjast (ok viðurkenni að það er aðeins auðveldara hérna í London heldur en heima á Íslandi, en það má alltaf reyna, tjalda yfir borðið eða eitthvað, he he). Upplagt er að nota afgang af grilluðum kjúklingi í þessa uppskrift. Salatið er frábært í nesti daginn eftir (er mér sagt....). Ef þið hafið mjólkuróþol má nota sojajógúrt í staðinn fyrir venjulega jógúrt.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án hneta
 • Án mjólkur

Kjúklingasumarsalat

Fyrir 2

Innihald

 • 250 g grilluð (helst) eða steikt kjúklingabringa, rifin í strimla. Skinnið ekki notað. Notið einungis „hamingjusaman kjúkling" (þ.e. free range). Ef þið eigið ekki grillaðan kjúkling steikið þá bringuna upp úr smá kókosolíu og vatni
 • 30 g ristaðar möndlur (þurrristaðar á heitri pönnu í 3-5 mínútur)
 • 1 sellerístilkur í sneiðum
 • 30 g rúsínur
 • 30 g þurrkaðar aprikósur, saxaðar smátt
 • 1 marið hvítlauksrif
 • 0,5 tsk svartur pipar
 • 0,5 tsk engifer 
 • Jöklasalat (iceberg) eða blandað salat (Lambhagasalat, eikarlauf, klettasalat o.fl.)
 • 2 vel þroskaðir tómatar, í sneiðum
 • 1 msk appelsínusafi
 • 100 ml hrein jógúrt eða AB mjólk. Einnig má nota sojajógúrt

Mangó-karrísósa

 • 2 msk mangomauk (mango chutney). Hægt er að kaupa tilbúið mangomauk en það er yfirleitt hlaðið aukaefnum og sykri
 • 1 tsk karrí
 • 2 tsk tamarísósa
 • 125 ml hrein jógúrt eða AB mjólk. Einnig má nota sojajógúrt
 • Hrærið saman og berið fram í sér skál með salatinu

Aðferð

 1. Grillið kjúklingabringuna eða steikið upp úr 1 tsk kókosolíu og vatni. Kælið og rífið í strimla.
 2. Sneiðið selleríið og tómatana.
 3. Skerið aprikósurnar í smáa bita.
 4. Merjið hvítlaukinn.
 5. Þurrristið möndlurnar á heitri pönnu (án olíu) í 3-5 mínútur eða þangað til þær taka lit.
 6. Blandið saman kjúklingi, selleríi, apríkósum, rúsínum og möndlum í stóra skál.
 7. Hrærið saman jógúrti og appelsínusafa og bætið út í ásamt engiferi og pipar. Blandið vel saman án þess að hræra.
 8. Kælið í um 30 mínútur.
 9. Setjið salatblöð og tómatsneiðar á 2 diska og síðan kjúklingasalatið þar ofan á. Ég hef stundum haft mango-karrísósu með þessu salati og það passar bara fínt.
 10. Ef þið notið mango-karrísósuna, blandið þá jógúrti, tamarisósu, mangomauki og karríi saman og kælið aðeins. Berið fram í sér skál.

Gott að hafa í huga