Kjúklingasalat með mangókarrísósu

Það er upplagt að hafa þessa uppskrift daginn eftir Tandoori kjúklinginn því hráefnin eru ekkert ósvipuð (kryddin og mango chutneyið).

Kaupið bara tvöfalt meiri kjúkling og eigið í salatið. Það er frábært að borða þetta salat úti í góðu veðri, ekta sumarsalat, ferskt og gott. Svo er það frábært í nestið daginn eftir. Hægt er að nota keypt mangomauk en það er yfirleitt hlaðið sykri og það er rosa gaman að búa það til sjálfur! Ef þið hafið mjólkuróþol getið þið sleppt fetaostinum og notað sojajógúrt í stað venjulega jógúrtsins.


Létt og fínt kjúklingasalat

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur

Kjúklingasalat með mangókarrísósu

Fyrir 2

Innihald

  • 2 grillaðar (helst) eða steiktar kjúklingabringur (án skinns). Ef þið þurfið að steikja kjúklinginn, steikið þá bringur upp úr smá kókosolíu og vatni. Ekki nota skinnið. Aðeins ætti að nota free range og organic („hamingjusaman") kjúkling.
  • Blandað salat (fæst tilbúið í pokum, annars má blanda saman jöklasalati, eikarlaufi, lambhagasalati, spínati o.fl.)
  • Hálfur blaðlaukur, smátt saxaður (ljósgræni og græni hlutinn notaður)
  • 1 rauð paprika, skorin í smáa bita
  • Hálf gúrka skorin í smáa bita
  • Hálf krukka fetaostur í vatni (má sleppa)
  • Hálf dós ananasbitar (ekki í sykurlegi)
  • Hálf dós maískorn (ekki sykurbætt)

Mangókarrísósa

  • 2 msk Mangómauk (mango chutney)
  • 1 tsk karrí
  • 2 tsk tamarísósa
  • 150 ml hrein jógúrt eða AB mjólk. Einnig má nota sojajógúrt

Aðferð

  1. Grillið bringurnar eða steikið upp úr 1 tsk kókosolíu og vatni. Skerið kjötið í litla bita og setjið í skál ásamt salatinu.
  2. Skerið gúrkuna í smáa bita og saxið blaðlaukinn smátt.
  3. Fræhreinsið paprikuna og skerið í smáa bita.
  4. Látið vatnið renna af fetaostinum.
  5. Látið safann renna af ananasinum og maískornunum. Setjið í skálina.
  6. Bætið öllu öðru saman við og geymið kjúkllingasalatið í kæli þangað til á að bera salatið fram (gott að geyma á borðinu í um 20 mínútur áður en það er borðað).
  7. Hrærið saman öllu sem á að fara í mangókarrísósuna (mangómauk, karrí, tamarísósa og jógúrt) og berið fram í sér skál

Gott að hafa í huga

Ummæli um uppskriftina

Lilja Hallbjörnsdóttir
22. apr. 2011

Þessa uppskrift ætla ég að gera fyrir Páskadagsboðið, líst vel á, takk fyrir :-)

Védís
08. ágú. 2011

Ég var í vandræðum með ananasinn, skar einn ferskan og safinn af honum bleytti svo upp í salatinu, sem var þó mjög bragðgott. Takk fyrir mig!

sigrun
09. ágú. 2011

Æ já ananas getur verið svo mis-blautur. Ef hann er mjög safaríkur er gott að láta safann aðeins renna af honum í sigti áður en maður setur út í salat (á eiginlega alltaf við þegar maður notar ananas í rétti).

Thordur
10. okt. 2011

Þessi uppskrift er æði. Ég bjó þetta til á augabragði og að máltíð lokinni var ekki arða eftir svo góður þótti heimilisfólkinu rétturinn. Fínt að fá ábendingu fá Vigdísi um ananasinn og bleytu. En þessi réttur verður örugglega aftur og aftur í matinn. Takk fyrir okkur Sigrún.

sigrun
10. okt. 2011

Svo gaman að heyra og takk fyrir að deila með okkur. Svo er upplagt að hafa afganga af salatinu með í nestisboxið :)

hofi
02. júl. 2012

ég er bara að pæla í því hvar hægt er að fá tamarí sósuna ?? endilega svara fljótlega :)

sigrun
02. júl. 2012

&;Heilsubúðum.... annars geturðu notað sojasósu en reyndar inniheldur hún hveiti

Magnea86
04. jan. 2013

Ég gerði þennan rétt í gærkvöldi og vá hvað hann er góður. Er með afganginn í nestisboxi og bíð spennt eftir hádegismatnum. Ég borða ekki ananas þannig ég sleppti honum en skar niður ferskt mangó í staðin (notaði bara hálft). Fannst tilvalið að prófa það því það er mango chutney í sósunni og mér fannst það passa vel við.

Takk fyrir mig :)

sigrun
04. jan. 2013

Gaman að heyra Magnea :) Ég hef notað tofu í stað kjúklings og það kom vel út líka (af því ég borða ekki kjöt) en rétturinn var bara betri daginn eftir að mínu mati. Vona að hann verði góður í dag líka :) Líst vel á mango tilbrigðið :)