Kjúklingakarríréttur
27. febrúar, 2003
Þetta er svona mildur laugardagskjúklingur, ofsalega fínn með grófu brauði, byggi eða hýðishrísgrjónum og góðu salati.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
- Án hneta
Kjúklingakarríréttur
Fyrir 2-3
Innihald
- 500 g grillaður, skinnlaus kjúklingur í strimlum
- 1 laukur, afhýddur og saxaður
- 1,5 tsk ferskt engifer, afhýtt og saxað
- 1 stk hvítlauksrif, saxað smátt
- 1 tsk kókosolía
- 2,5 tsk karrí
- 0,5 tsk cumin, malað (ekki kúmen)
- 0,5 tsk kanill
- 50 ml ósætt eplamauk (t.d. frá Hipp Organic eða Holle)
- 50 ml hrein jógúrt
- 1 msk maísmjöl
- 2,5 tsk tómatmauk (puree)
- 75 g frosnar, grænar baunir
- 125 ml vatn
- 1 gerlaus grænmetisteningur
- 25 ml kókosmjólk
Aðferð
- Hitið kókosolíu á stórri pönnu.
- Afhýðið lauk og engifer og saxið smátt.
- Mýkið laukinn á pönnunni í 7-10 mínútur. Notið vatn ef þarf meiri vökva.
- Bætið engiferi og hvítlauk út á og hitið í 3 mínútur.
- Bætið við karríi, cumin og kanil og látið malla þar til fer að ilma (í um 1 mínútu). Ef vantar vökva, bætið þá svolitlu vatni við.
- Hrærið saman vatni, maísmjöli og tómatmauki og setjið út á pönnuna. Látið malla í 5 mínútur.
- Bætið grænmetisteningi út í og látið malla þangað til hann leysist upp (í um 5 mínútur).
- Rífið kjúklinginn í stóra strimla og setjið út á pönnuna. Látið sjóða svo að kjúklingurinn hitni í gegn. Ef hrár kjúklingur er notaður skal bæta við smávegis vatni og láta kjúklinginn sjóða í sósunni.
- Lækkið hitann og látið malla þar til sósan hefur þykknað lítillega, hrærið við og við, í um 30 mínútur.
- Setjið grænar baunir, jógúrt og eplamauk út í sósuna og hitið í 5 mínútur.
- Bætið kókosmjólk út á pönnuna og lækkið hitann aðeins.
- Hrærið þar til sósan hefur þykknað nóg til að hylja bakhluta skeiðar, eða í um 3 mínútur (látið ekki sjóða).
- Kryddið með smávegis salti (Himalaya eða sjávarsalt) og svörtum pipar.
- Berið fram á pönnunni og skreytið með fersku coriander.
Gott að hafa í huga
- Berið fram með hýðishrísgrjónum, mango mauki (mango chutney), raita gúrkusósu og jafnvel nýbökuðu chapati brauði.
- Notið einungis „hamingjusaman” kjúkling(þ.e. free range) ef þið mögulega getið.
- Ef þið fáið ekki grillaðan kjúkling steikið þá kjúkling í smá kókosolíu og vatni (fjarlægið skinnið). Einnig má nota hráan kjúkling og hita í sósunni.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
- Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
- Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar, t.d. í svona súpur.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025
Ummæli um uppskriftina
01. sep. 2011
Stórgóður réttur. Öll fjölskyldan naut góðs af.
01. sep. 2011
Gaman að heyra Erna Kristín, takk fyrir að deila með okkur :)
17. okt. 2011
Dásamlegur réttur, ég eldaði sem betur fer tvöfaldauppskrift !
17. okt. 2011
Gaman að heyra....kannski að ég eldi hann bara um helgina sjálf (vantar nefnilega mynd) :)
02. sep. 2014
Prófaði þennan og hann er æðislega góður. Takk fyrir okkur!
Á að vera frekar lítil sósa? En hún var sjúklega góð og ég vildi meira af henni ;)
Væri alveg til í að sjá mynd af þínum rétt svo ég sjái áferðina?
02. sep. 2014
Góður punktur Eygló, ég þarf að snara mynd inn á vefinn :) Sósan er ekki mikil og það má tvöfalda hana ef fólki finnst hún góð .)