Kjúklingabaunasúpa

Einfaldur, bragðgóður og fljótlegur matur, svoleiðis á hann að vera! Súpan er saðsöm og er sérlega ódýr sem er ekki amalegt fyrir svona hollan og góðan mat. Fullkomin með nýbökuðu, grófu brauði á köldum haustdegi. Hún er EKKI verri ef maður bætir við Shiitake sveppum (sjá neðst). Súpan hentar vel fyrir þá sem hafa glúteinóþol því það er ekkert hveiti eða spelti í henni. Það er mjög auðvelt að gera súpuna mjólkurlausa og má einfaldlega sleppa parmesan ostinum.

Athugið að best er að nota matvinnsluvél, blandara eða töfrasprota til að mauka súpuna.


Einföld og saðsöm kjúklingabaunasúpa

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur

Kjúklingabaunasúpa

Fyrir 2

Innihald

  • 2 blaðlaukar (allt nema blöðin), saxaðir smátt.
  • 2-3 stór hvítlauksrif
  • 1 msk kókosolía
  • 1,5 gerlausir grænmetisteningar 
  • 600-800 ml vatn
  • 400 g kjúklingabaunir, hellið vatninu af. Ef þær eru saltaðar, minnkið þá saltið
  • 20 g parmesanostur, rifinn
  • Smá klípa svartur pipar
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt ) ef þarf

Aðferð

  1. Saxið blaðlaukinn smátt.
  2. Afhýðið hvítlaukinn og saxið smátt.
  3. Hitið kókosolíu í potti. Steikið blaðlaukinn ásamt hvítlauknum í nokkrar mínútur. Notið vatn ef þarf meiri vökva.
  4. Til að losa hýðið af kjúklingabaunum er gott að leggja þær í smástund í vatn og nudda þær varlega með fingrunum. Við það losnar hýðið og flýtur á yfirborðið. Það þarf ekki að losa hýðið af en er samt mjög gott, súpan verður ekki verri svoleiðis. Ekki hugsa mikið um notaðar augnlinsur meðan þið gerið þetta, maður gæti misst matarlystina ha ha!!
  5. Bætið baununum, grænmetisteningunum og vatninu saman við og leyfið þessu að malla í pottinum í 15 mínútur.
  6. Kælið aðeins og maukið svo í smáskömmtum í matvinnsluvél eða notið töfrasprota.
  7. Gott er að skilja svolítið eftir af baununum til að bíta í þ.e. mauka ekki í klessu.
  8. Setjið súpuna aftur í pottinn og hitið að suðu.
  9. Saltið (ef þarf) og piprið. Það má alveg setja slatta af pipar.
  10. Rífið parmesanostinn og bætið út í. Það má líka bera hann fram í sér skál.

Gott að hafa í huga

  • Það má vel nota 4-5 vorlauka í stað blaðlauksins. Notið allan vorlaukinn nema hvíta endann.
  • Það er ógurlega gott að nota sveppi í súpuna, helst ferska shiitake sveppi. Saxið 4 sveppi og steikið þá með lauknum.
  • Gott er að bera súpuna fram með nýbökuðu snittubrauði. Einnig má rista spelt- eða heilhveitipítubrauð og brjóta svo í bita til að dýfa ofan í (athugið að pítubrauð inniheldur ger).

Ummæli um uppskriftina

Védís
08. ágú. 2011

Frábær súpa! Er að gera uppskriftir eftir síðunni þinni núna út alla vikuna. Byrjaði á laugardaginn síðasta og þá var það kjúklingabaunasúpan - ég skellti saman vorlauk og blaðlauk og það var alls ekki slæm blanda. Takk fyrir mig!

sigrun
09. ágú. 2011

Gaman að heyra Védís :) Þú mátt endilega láta vita hvernig tekst til með vikuna :)

gestur
03. mar. 2016

Mjög bragðgóð súpa og sérstaklega þegar parminn er settur út í

sigrun
04. mar. 2016

Gott að heyra!