Kjúklingabaunaspírur
13. janúar, 2007
Kjúklingabaunaspírur eru æðislega góðar og komu mér reglulega á óvart. Það er auðveldast að spíra þær af þeim baunum sem ég hef prófað og þær geymast ágætlega í kæli. Þær eru mun sætari en manni hefði dottið í hug og eru ferlega góðar eintómar með smá tamarisósu. Þær eru auðvitað frábær viðbót í alls kyns salöt. Baunaspírur eru svo hollar að maður ætti að borða svolítið af þeim á hverjum einasta degi. Við það að spíra, margfaldast þær í hollustu!
Kjúklingabaunaspírur vinstra megin en óspíraðar baunir hægra megin
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
- Hráfæði
Kjúklingabaunaspírur
1 skammtur
Innihald
- 1 lúka kjúklingabaunir
- 1 hrein glerkrukka (gætið þess að hún sé a.m.k. 5 sinnum stærri en magnið af baununum)
- 200 ml vatn
Aðferð
- Látið vatn fljóta yfir baunirnar í krukkunni. Látið liggja í bleyti í 12 tíma.
- Hellið vatninu af og skolið baunirnar. Hellið aftur af.
- Látið baunirnar standa við stofuhita.
- Skolið baunirnar 3-5 sinnum á dag í 3-5 daga.
- Fylgist með spírunum því þegar spíruendarnir eru orðnir gulleitir eru baunirnar búnar að vera of lengi að spírast.
- Til að hægja á spírunarferlinu má geyma spírurnar í ísskáp og skola þær af og til. Þær geymast þannig í meira en viku.
Gott að hafa í huga
- Best er að nota lífrænt ræktaðar kjúklingabaunir og sem allra nýjastar. Ef spírunin gengur illa geta baunirnar verið of gamlar.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024