Kjúklinga Chow Mein (núðluréttur)

Það eru óteljandi afbrigði af Chow Mein og hvert land (og álfa) hefur sína útgáfu. Allar eiga þær þó það sameiginlegt að vera undir kínverskum áhrifum þar sem Chow Mein rétturinn er upphaflega kínverskur. Mín útgáfa er bara létt og fín og hentar vel sem góður kvöldmatur og svo í nestisboxið daginn eftir. Það er ekki gott að frysta réttinn svo útbúið bara eins mikið og þið þurfið fyrir 2 kvöldmata eða kvöldmat og nesti (eða hvernig svo sem þið viljið raða því). Athugið að best er að nota wok pönnu en ef þið eigið ekki svoleiðis er best að hita pönnuna mjög vel og steikja svo hvert hráefni fyrir sig áður en þið blandið því svo saman að lokum á pönnunni.

Ahugið að rétturinn inniheldur olíu af sesamfræjum en þið getið sleppt henni ef þið hafið ofnæmi. Athugið einnig að fiskisósa (enska: fish sauce eða Nam Plah) inniheldur stundum sykur svo kaupið hana úr heilsubúð ef þið eruð ekki viss.


Léttur og litríkur núðluréttur

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta en með fræjum
 • Án hneta

Kjúklinga Chow Mein (núðluréttur)

Fyrir 3-4

Innihald

 • 250 g hrísgrjónanúðlur (helst úr brúnum hrísgrjónum)
 • 275 g kjúklingabringur, grillaðar (helst)
 • 1 hvítlauksgeiri, marinn
 • 1 rauð paprika, skorin í mjóa strimla.
 • 100 g shiitake sveppir, sneiddir þunnt (eða venjulegir sveppir)
 • Hálfur blaðlaukur, skorinn í mjóar ræmur
 • 100 g baunaspírur
 • 1 msk tamarisósa
 • 2 msk fiskisósa (enska: fish sauce/Nam Plah)
 • 1 msk sesamolía
 • 2 tsk kókosolía
 • 0,5 tsk svartur pipar

Aðferð

 1. Sjóðið núðlur samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Látið kalt vatn renna á þær, sigtið og setjið í skál. 
 2. Skerið paprikuna í helminga, fræhreinsið og skerið í mjóa strimla (mjórri en fingur).
 3. Sneiðið sveppina þunnt.
 4. Skerið blaðlaukinn í mjóar ræmur (mjórri en fingur).
 5. Afhýðið hvítlaukinn og merjið.
 6. Hitið stóra (helst wok) pönnu upp í háan hita (hæsta hitastig) og bætið 1 teskeið af kókosolíu á pönnuna. Steikið kjúklinginn í um 7-10 mínútur eða þangað til tilbúinn (enginn rauður vökvi eða bleikt kjöt). Notið vatn ef þarf meiri vökva. Fjarlægið skinnið og rífið kjúklinginn í strimla. Setjið til hliðar.
 7. Setjið 1 teskeið af kókosolíu á pönnuna og steikið hvítlaukinn, paprikuna, sveppina, blaðlaukinn og baunaspírurnar á pönnunni. Steikið í um 2-3 mínútur og veltið hraéfninu stanslaust við. Ef þið eigið Wok pönnu er mjög gott að nota svoleiðis. Notið vatn ef þarf meiri vökva. Ef þið eigið ekki wok pönnu er best að steikja hvert hráefni fyrir sig og blanda svo saman í lokin.
 8. Bætið kjúklingnum út á stóru pönnuna.
 9. Kryddið með tamarisósunni, fiskisósunni og pipar.
 10. Bætið núðlunum saman við og hitið aðeins.
 11. Hellið sesamolíunni yfir og hitið í nokkrar sekúndur.
 12. Blandið öllu vel saman (en gætið þess að merja ekki núðlurnar).
 13. Berið fram í djúpum skálum og gjarnan með prjónum.

Gott að hafa í huga

 • Hægt er að sleppa kjúklingnum og nota bara grænmeti í þennan rétt, t.d. með því að bæta við bambussprotum og kúrbít (enska: zucchini, courgette). Einnig má nota tofu eða rækjur.
 • Nota má 4-5 vorlauka í staðinn fyrir blaðlauk.
 • Nota má udon núðlur (ath úr hveiti) eða soba núðlur (úr bókhveiti) í staðinn fyrir hrísgrjónanúðlur.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Notið „hamingjusaman kjúkling” (free range) ef þið mögulega getið.

Ummæli um uppskriftina

Anna Sigríður Pétursdóttir
29. ágú. 2011

Alltaf spennandi að kíkja en hef verið spenntari fyrir blogginu þínu. Þú ert skemmtilegur penna.

gestur
04. feb. 2012

Supan kom mer ut ur ruminu eftir 4 daga magapest!

sigrun
14. apr. 2012

Gott að heyra að hún gerði gagn :)