Kitheri (afrískur pottréttur)

Þennan pottrétt smakkaði ég fyrst í Afríku (Kenya) árið 2005. Mér fannst hann hrikalega góður en eftir ótal ferðir til Afríku gleymdi ég þó alltaf að fá uppskriftina að honum. Einn daginn var ég svo í mat hjá mágkonu minni Lucy og bróður mínum og hún eldaði þennan rétt. Ég varð ekki lítið glöð að fá uppskriftina og það hjá innfæddri konu því Lucy er nefnilega frá Kenya. Það besta við þennan rétt er að fyrir utan hversu hollur hann er, þá er hann ódýr og saðsamur. Þetta er svona réttur sem má malla í pottinum endalaust og verður bara betri og betri ef hann geymist í pottinum í nokkra daga. Þetta er hinn fullkomni haustpottréttur og ekki of bragðsterkur til að hann sé ekki fínn fyrir krakka líka. Pottrétturinn er líka glúteinlaus, eggjalaus, mjólkurlaus, vegan og hnetulaus.

Best er að baka chapati brauð með pottréttinum en þannig borðar maður yfirleitt kitheri í Kenya, nú eða með ugali (soðnu maísmjöli) en chapati er að mínu mati mun meira spennandi (ugali er nánast alveg bragðlaust).

Gefið ykkur nokkra klukkutíma til að leyfa pottréttinum að malla. Maður flýtir sér aldrei í Afríku (pole pole) og sérstaklega ekki við matargerð! Til gamans má geta að baunirnar á þessari mynd eru ræktaðar af konu sem heitir Susan og býr í Kenya. 

Furahieni chakula chenu (njótið matarins)!


Afrískur pottréttur, litríkur og hollur

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Kitheri (afrískur pottréttur)

Fyrir 3-4

Innihald

 • 4 kartöflur
 • 1 laukur
 • 1 msk kókosolía
 • 3 gulrætur
 • 1 kúrbítur
 • 1 rauð paprika og 1 græn paprika
 • 350 g maískorn, frosin (helst stór og hörð ef þið fáið slík)
 • 1,5 gerlausir grænmetisteningar
 • 200 g saxaðir tómatar (má nota úr dós)
 • 2 dósir nýrnabaunir eða pintobaunir (um 500 g þegar búið er að sigta vatnið frá)
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • Smá klípa svartur pipar 
 • 1 tsk karrí
 • Lófafylli ferskt coriander

Aðferð

 1. Sjóðið kartöflurnar í um 15 mínútur eða þangað til þær eru nánast alveg tilbúnar, skrælið og saxið mjög gróft (skerið hverja kartöflu í 3-4 bita).
 2. Afhýðið lauk og saxið smátt. Skrælið gulrætur og skerið í meðalstóra bita.
 3. Skerið paprikurnar langsum, fræhreinsið og skerið í grófa bita.
 4. Skerið kúrbítinn í frekar grófar sneiðar. Skerið hverja sneið svo í 4 bita.
 5. Hitið kókosolíuna í stórum potti. Steikið lauk og kartöflur saman í stórum potti þangað til laukurinn mýkist. Bætið svolitlu vatni út í ef þarf meiri vökva.
 6. Bætið paprikum,og gulrótum út í og látið malla í um 10 mínútur eða þangað til gulræturnar verða mjúkar.
 7. Bætið kúrbítnum og söxuðu tómötunum saman við og látið malla í um 10 mínútur við meðalhita.
 8. Látið vökvann renna af nýrnabaununum og bætið þeim út í pottinn ásamt maískornunum og grænmetisteningunum.
 9. Bætið karríi út í og bragðið til með salti og pipar.
 10. Saxið coriander og dreifið yfir.
 11. Það sem gerist núna er að grænmetið sýður og pottrétturinn mun virka svolítið „blautur” og óspennandi þ.e. ekki alveg „blandaður saman” eins og pottréttir eiga að vera. Það er þó allt í lagi þar sem pottrétturinn á eftir að malla lengi og mun líta betur út, eða svona eins og þeir eiga að gera! Setjið lokið yfir pottinn og látið krauma á góðum hita í svona 30-40 mínútur.
 12. Takið lokið af og látið malla í um 20 mínútur á aðeins lægri hita
 13. Berið fram með chapati brauði og meira af fersku coriander ef þið viljið. 

Gott að hafa í huga

 • Gerið nægilega mikið af pottréttinum til að hafa hann daginn eftir. Hann er frábær í nestisboxið (jafnvel kaldur). Einnig er upplagt að frysta afgang og hita upp síðar.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Sleppa má fersku coriander fyrir þá sem vilja það ekki. 
 • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum. Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.

Ummæli um uppskriftina

Myndin og propsin eru gorgeous!

Mér þykir alltaf svo vænt um þessa uppskrift; sú fyrsta sem ég gerði eftir að ég byrjaði að nota vefinn þinn.

sigrun
09. okt. 2015

Jiii vissi ekki að þetta hefði verið fyrsta uppskriftin :)