Karrípottréttur með nýrna- og kjúklingabaunum

Það sniðuga við pottrétti er að maður getur búið til heilan helling af þeim í einu og annað hvort átt mat í nokkra daga eða fryst það sem er umfram. Pottréttir eru líka þannig að þeim mun lengur sem þeir fá að malla og liggja í potti þeim mun betri verða þeir (með takmörkunum þó þ.e. mánaðargamlir pottréttir held ég að séu ekkert góðir he he). Þessi pottréttur er voða fínn og hefðbundinn grænmetispottréttur með baunum og rauðu karrímauki. Ég held að upprunaleg uppskrift komi frá Grænum kosti en hún hefur eitthvað breyst frá manni til manns grunar mig. Þetta er mín útgáfa. Eins og allt frá Sólveigu á Grænum kosti er þessi réttur ljúffengur.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Karrípottréttur með nýrna- og kjúklingabaunum

Fyrir 3-4

Innihald

  • 1 msk kókosolía
  • 1 laukur, afhýddur og skorinn í sneiðar
  • 1 stk rauður chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 1 msk rautt karrímauk
  • 3 msk tómatmauk (puree)
  • 4 gulrætur, skrældar og skornar langsum í 2 sm strimla
  • 1 blómkálshaus, brotinn í litla sprota
  • 1 græn paprika, fræhreinsuð og skorin í litla bita
  • 400 ml dós kókosmjólk 
  • 400 g niðursoðnir tómatar
  • 2 gerlausir grænmetisteningar 
  • 400 g (1 dós) nýrnabaunir, vökvi sigtaður frá
  • 400 (1 dós) kjúklingabaunir, vökvi sigtaður frá
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)

 

Aðferð

  1. Afhýðið laukinn og saxið smátt.
  2. Skerið chili piparinn og paprikuna langsum og fræhreinsið. Skerið paprikuna í smáa bita og saxið chili piparinn smátt.
  3. Brjótið blómkálshausinn í litla sprota.
  4. Skrælið gulræturnar og skerið langsum í 2 sm ræmur.
  5. Hitið kókosolíu í potti. Steikið laukinn í um 7 mínútur eða þangað til hann er mjúkur. Bætið vatni út í pottinn ef þarf meiri vökva.
  6. Bætið chili pipar, karrímauki og tómatmauki út í og steikið í um 3 mínútur.
  7. Setjið papriku, blómkál og gulrætur í pottinn, hrærið öllu vel saman við kryddið.
  8. Hellið vökvanum af nýrnabaunum og kjúklingabaunum.
  9. Bætið kókosmjólkinni út í pottinn ásamt niðursoðnu tómötunum, kjúklingabaununum, nýrnabaununum og gerlausa grænmetisteningnum.
  10. Látið pottréttinn malla í 20-30 mínútur og bragðið síðan til með salti og pipar.

Gott að hafa í huga

  • Berið fram með raita gúrkusósu og chapati brauði.
  • Eins og á við um marga pottrétti þá er það þannig að því lengur sem rétturinn fær að malla í pottinum því betri verður hann. Passið samt að hann brenni ekki við og bætið nokkrum matskeiðum af vatni út í ef hann á að malla mjög lengi.
  • Rautt karrímauk er hægt að fá í flestum heilsubúðum sem og stærri matvöruverslunum. Gætið þess bara að sé ekki msg (monosodium glutamate, E-600 efni eða sykur í innihaldinu. Kaupið helst lífrænt framleitt mauk. Athugið að þau geta verið afar bragðsterk og geta innihaldið rækjumauk. Ef þið eruð jurtaætur (enska: vegan) eða með ofnæmi fyrir sjávarafurðum þurið þið að lesa innihaldið vel.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar, t.d. í svona súpur.
     

Ummæli um uppskriftina

JóhannaSH
18. nóv. 2012

Þetta er sjúklega góður réttur! Er orðinn einn af mínum uppáhalds! MmmmMmm!

sigrun
18. nóv. 2012

Gaman að heyra, var einmitt að borða hann í gær ;) Verður bara betri á degi 2 :)

gestur
17. maí. 2015

"8. Hellið vökvanum af nýrnabaunum og kjúklingabaunum."

Hella í pottinn eða í vaskinn?

sigrun
17. maí. 2015

Í vaskinn, annars hefði staðið "hellið nýrnabaununum og kjúklingabaununum ásamt vökvanum í pottinn".