Karríhnetusteik

Þessi hnetusteik er hreint út sagt frábær. Hún er mild en bragðgóð og frábær með t.d. hollri tómatsósu eða sveppasósu. Fyrir þá sem þola ekki glútein má nota hrísgrjón í staðinn fyrir brauð. Uppskriftin kemur úr blaði sem heitir Vegetarian (jólaútgáfan). Það voru ekkert spennandi uppskriftir í blaðinu nema þessi eina (að mér fannst) og hún er aldeilis góð. Þessi á pottþétt eftir að vera á jólunum, aftur og aftur. Það virkar kannski smá maus að gera þessa hnetusteik en eins og með allan sparimat þá tekur hann svolítinn tíma en er vel þess virði. Það góða við hnetusteikur er að maður getur búið þær til með góðum fyrirvara, fryst og svo hitað upp á jólunum. Þær verða meira að segja bara betri við það ótrúlegt en satt. Ef maður er ekki með pláss í frystinum getur maður geymt hnetusteikina í nokkra daga í ísskáp og svo hitað upp á hátíðarstund.

Best er að nota matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift og þið þurfið einnig stórt brauðform (sem tekur 1 kg) til að baka hnetusteikina í.

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án glúteins
 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Karríhnetusteik

Fyrir 6

Innihald

 • 2 laukar
 • 1 grænn chili pipar
 • 6 hvítlauksrif
 • 5 sm biti ferskt engifer
 • 1 lítil kartafla
 • 2 gulrætur
 • 300 g blómkál (þyngd fyrir snyrtingu)
 • 1 msk kókosolía
 • 2 tsk karrí
 • 2 tsk tómatmauk (puree)
 • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 140 g blandaðar hnetur (cashew-, hesli- og brasilíuhnetur) 
 • 25 g corianderlauf, söxuð gróft. Notið nokkur lauf í að skreyta hnetusteikina
 • 100 g speltbrauðrasp (einnig má nota hrökkbrauð)
 • 1 egg, hrært lauslega

Aðferð

 1. Afhýðið lauk, hvítlauk og engifer. Saxið smátt.
 2. Brjótið blómkálið í sprota og rífið á rifjárni eða setjið í matvinnsluvél (og notið rifjárnsblað).
 3. Skrælið kartöflu og gulrætur og rífið á rifjárni.
 4. Skerið chili piparinn langsum, fræhreinsið og saxið smátt.
 5. Hitið kókosolíu á stórri pönnu. Bætið við vatni ef þarf meiri vökva á pönnuna. Steikið laukinn þangað til hann fer að mýkjast. Bætið chili pipar, hvítlauk, karríi, tómatmauki, salti og engiferi út í og hitið í nokkrar mínútur. Bætið rifnu kartöflunni, gulrótunum og blómkálinu saman við og hitið í nokkrar mínútur. Setjið allt í stóra skál.
 6. Til að gera brauðrasp er best að rista brauðsneiðar í brauðrist og mylja þær svo eða mala í matvinnsluvél. Einnig má nota spelt hrökkbrauð eða glúteinlaust hrökkbrauð.
 7. Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í 2-3 mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af.
 8. Setjið heslihnetur, cashewhnetur og brasilíuhnetur í matvinnsluvél og látið vélina vinna í 10-20 sekúndur eða þangað til nokkuð fínmalaðar án þess þó að verði að mauki.
 9. Saxið corianderlaufin.
 10. Blandið hnetunum, brauðraspinu, egginu og söxuðu corianderlaufunum út í stóru skálina og hrærið vel.
 11. Klæðið brauðform (sem tekur 1 kg) að innan með bökunarpappír. Setjið innihaldið í formið og þrýstið vel í kantana svo hvergi sé hola. Klæðið lauslega með álpappír. Bakið við 190°C í um eina klukkustund.
 12. Takið álpappírinn af og bakið áfram í um 15 mínútur.
 13. Skreytið með corianderlaufum.
 14. Berið fram með t.d. hollri tómatsósu eða villisveppasósu.

Gott að hafa í huga

 • Hnetusteikin er prýðileg í nestisboxið og bragðast vel köld.
 • Upplagt er að frysta hnetusteikina og geymist hún þannig í nokkra mánuði ef hún er vel lokuð í plastpoka.
 • Deigið hentar vel í grænmetisborgara en þá skal baka borgarana styttra eða í um 35-40 mínútur.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má hýðishrísgrjón í staðinn fyrir brauðraspið.
 • Í staðinn fyrir spelt brauðsneiðar má nota spelt hrökkbrauð.
 • Til að gera uppskriftina glúteinlausa má nota glúteinlaust brauð eða glúteinlaust hrökkbrauð.

Ummæli um uppskriftina

Kristín Í París
12. des. 2011

Sæl, ég var að skella þessari uppskrift í ofninn og bíð nú spennt. Ein spurning: Ef maður notar hrísgrjón í staðinn fyrir rasp, vigtar maður þau þá soðin eða hrá?

sigrun
12. des. 2011

Alltaf soðin nema ég taki annað fram :)

Jóhanna Sigríður
26. nóv. 2012

Takk takk fyrir að deila þessari steik með okkur..

sigrun
26. nóv. 2012

Mín var ánægjan Jóhanna :)