Kanilsnúðar

Ég hef hundrað sinnum verið beðin um uppskrift af kanilsnúðum í gegnum tíðina. Ég hef yfirleitt átt eina svona baka til en hef ekki birt hana fyrr en nú. Ég fann nefnilega uppskrift fyrir löngu síðan í amerísku Fannie Farmer bókinni okkar sem gefin var út 1940 og eitthvað en þurfti að sjálfsögðu að gera hana svona 90% hollari (enda Fannie Farmer ekki þekkt fyrir hollustubakstur). Þó að þessi uppskrift sé blanda úr einni frá 1940 og árið 2015 þá er hún reglulega góð. Svo góðir að snúðarnir hverfa hratt af bökunarplötunni um leið og þeir koma úr ofninum! Þessir snúðar eru mjólkurlausir og vegan. 

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Kanilsnúðar

10-12 litla snúða

Innihald

  • 200 g spelti
  • 80 ml hlynsíróp 
  • 5 msk kókosolía
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 3-4 msk sojamjólk (eða önnur mjólk)
  • 4 msk lífrænt framleidd hindberjasulta án viðbætts sykurs (einnig má nota döðlu-, bláberja-, jarðarberjasultu eða þá sem ykkur finnst best)
  • Kanilsykur: 1/4 msk kanill og 1/2 msk rapadura hrásykur eða erythritol sykur 

Aðferð

  1. Blandið spelti og lyftidufti saman í skál. Gerið holu í miðjunni á deiginu og hellið hlynsírópi og kókosolíu ofan í. Hnoðið deigið aðeins. Ef deigið er of blautt blandið þá meira spelti saman við eða ef það er of þurrt setjið þá smá mjólk út í. Það ætti ekki að loða mikið við fingurna og heldur ekki að vera of klístrað.
  2. Skiptið deiginu í 2 hluta og rúllið úr hlutunum ferninga sem eru 14x24sm. Gott er að hafa bökunarpappír undir (hjálpar til við að rúlla deiginu upp síðar). Ef deigið er klístrað er gott að setja spelti á bökunarpappírinn. Fletjið annan hlutann út með kökukefli (eða stórri flösku) þannig að brúnirnar verði jafnar (ekki mjög óreglulegar), deigið ætti að vera um 5mm að þykkt.
  3. Setjið helminginn af sultunni á deigið. Stráið helmingnum af kanilsykrinum yfir sultuna. 
  4. Rúllið deiginu upp í langa pylsu. Gott er að lyfta bökunarpappírnum aðeins frá langhliðinni og láta hann hjálpa sér við að ná taki á rúllunni. Geymið rúllurnar í kæliskáp í um 30 mínútur (auðveldara að skera). 
  5. Skerið í 2 sm sneiðar. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og raðið snúðunum. Hafið um 3 sm bil á milli.
  6. Endurtakið með hinn helminginn af deiginu. Athugið að þeir virka mjög litlir en munu þenjast aðeins út. 
  7. Bakið við 180°C í um 15 mínútur eða þangað til snúðarnir verða gullnir og eru farnir að ilma. 

Gott að hafa í huga

  • Best er að borða snúðana strax en ef ekki er best að frysta þá og hita upp síðar. Þeir verða annars mjúkir með smá geymslu.
  • Til að auka trefjamagnið er gott að setja 1 msk af möluðum hörfræjum út í deigið.
  • Nota má möndlumjólk, haframjólk, hrísmjólk eða venjulega mjólk (ekki vegan). 

Ummæli um uppskriftina

Ásta Hrund
01. ágú. 2015

Takk fyrir að hafa deilt enn einni dásemdar uppskriftinni með okkur :) Þessir eru rosa góðir og einfaldir. Var að gera þá í annað skipti og passaði að gera tvöfalda uppskrift í þetta sinn ;)

sigrun
01. ágú. 2015

Reglulega gaman að heyra Ásta Hrund og ég er svo ánægð að vel tókst til :) Hér er alltaf gerður tvöfaldur skammtur líka :)