Kakó- og heslihnetutrufflur
1. nóvember, 2016
Trufflur. Orðið eitt færir bros á varir mínar. Hugsanlega ætti að leynast vottur af samviskubiti líka...en það fer lítið fyrir því. Í reynd örlar ekki á samviskubiti. Trufflur eru svo góðar. Svo dásamlega góðar. Litlar kúlur af bragðsælu. Bragðsæla er orð er það ekki annars? Gildir einu svo sem. Þessar trufflur passa við öll tilefni og meira að segja þó ekkert tilefni sé til staðar má samt útbúa trufflur og borða. Þær eru það góðar. Treystið mér. Þær myndu líka fara vel sem tækifærisgjöf, eða jafnvel jólagjöf. Eða sem persónleg gjöf til manns sjálfs því yfirleitt er ekki svo auðvelt að láta trufflurnar af hendi.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
- Vegan (fyrir jurtaætur)
Kakó- og heslihnetutrufflur
Gerir um 50 trufflur
Innihald
- 150 g heslihnetur
- 1 tsk vanilludropar
- ½ tsk salt (Himalaya- eða sjávarsalt)
- 130 g dökkt súkkulaði með hrásykri
- 130 g ljóst súkkulaði með hrásykri
- Kakó
Aðferð
- Þurrristið heslihneturnar á heitri pönnu þar til hýðið fer að dökkna og losna af. Látið kólna, nuddið lausa hýðið af með fingrunum (það sem er fast má vera eftir). Setjið í matvinnsluvélina ásamt salti og vanilludropum og blandið í um 15 sekúndur eða þangað til hneturnar verða fínt malaðar.
- Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði. Setjið svolítið vatn í lítinn pott, setjið glerskál eða málmskál ofan á hann þannig að skálin sitji á brúnunum en snerti ekki vatnið því þá hleypur súkkulaðið í kekki og er ónýtt nema kannski saxað í möffins eða eitthvað slíkt. Brjótið súkkulaðið í jafnstóra bita til að tryggja jafna dreifingu hitans og setjið ofan í skálina. Bræðið yfir mjög lágum hita því hár hiti brennir súkkulaðið. Bætið heslihnetublöndunni saman við og hrærið vel, hellið í vítt og grunnt plastbox og setjið í kæliskáp til að leyfa blöndunni að kólna alveg og stífna (um klukkustund). Hrærið öðru hverju í blöndunni til að flýta fyrir kælingu.
- Þegar heslihnetublandan í kæliskápnum er orðin stíf skuluð þið leyfa henni að sitja við stofuhita í um 60 mínútur til að leyfa henni að mýkjast aðeins. Blandan verður þó áfram nokkuð hörð svo þið þurfið að skafa hana með skeið (t.d. melónuskeið eða lítilli ísskeið). Mótið litlar kúlur (gott að velgja blönduna vel í lófanum til að auðveldara sé að móta í kúlur) og veltið í kakó.
Berið kúlurnar fram við stofuhita.
Gott að hafa í huga
- Ef afgangur verður að súkkulaðinu er upplagt að saxa rúsínur, döðlur og meira af hnetum, blanda því saman við súkkulaðið, hella í grunnt nestisbox, kæla og brjóta svo í bita.
- Nota má möndlur í staðinn fyrir heslihnetur.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024