Jólaglögg (óáfengt)

Ég smakkaði í fyrsta skipti jólaglögg (óáfengt að sjálfsögðu) í jólaboði hjá yfirmanni mínum í verslun sem ég vann í með skóla í mörg ár.  Ég gleymi því ekki hvað mér fannst jólaglöggið gott. Það var líka eitthvað svo „traustvekjandi”, að halda utan um heitan bollann og finna kanellyktina stíga upp í nef. Þetta glögg er það gott að mig langar alltaf upp í sófa og undir teppi með bók þegar ég bý það til (bara um jól auðvitað). Það besta er, að glöggið er auðvitað óáfengt og pakkfullt af C vítamíni og andoxunarefnum og því verulega hollt. Það má að sjálfsögðu sletta rauðvíni út í (og auka þar með andoxunaráhrifin) ef maður vill. Svo er glöggið frábært ef maður er með blöðrubólgu....og myndi þá jafnvel kallast „blöðrubólguglögg”... en það er nú kannski önnur saga!

Mikilvægt er að nota trönuberjasafa án viðbætt sykurs en slíkur safi fæst yfirleitt í heilsubúðum. Hann má vera blandaður eplasafa.


Mmmm kósí jólaglögg, svoo góður og hollur drykkur

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án hneta

Jólaglögg (óáfengt)

Fyrir 2-3

Innihald

  • 500 ml hreinn trönuberjasafi (enska: cranberry juice)
  • 500 ml hreinn eplasafi
  • 2 kanilstangir
  • 4 negulnaglar
  • Safi úr hálfri sítrónu
  • 1 lófafylli heilar möndlur
  • 1 lófafylli rúsínur

Aðferð

  1. Setjið trönuberjasafa, eplasafa, kanilstangir og negulnagla í lítinn pott. Látið suðuna koma upp og leyfið blöndunni að malla í um 5-10 mínútur.
  2. Fjarlægið negulnaglana og kanilstangirnar.
  3. Setjið sítrónusafann út í og látið malla í 2-3 mínútur. 
  4. Rétt áður en bera á drykkinn fram má bæta rúsínum og möndlum út í (einnig getur hver og einn sett í sinn bolla).

Gott að hafa í huga

  • Mér finnst allt í lagi þó að negulnaglarnir og kanilstangirnar fái að vera lengur í pottinum en sumum finnst það of sterkt bragð.
  • Ekki láta rúsínurnar og möndlurnar liggja mjög lengi í pottinum (setjið frekar oftar út í) nema þær megi verða mjög mjúkar. Sumum finnst það allt í lagi en öðrum finnst það ógirnilegt (bólgnar rúsínur eru ekki svo fallegar).