Járnríkur og hreinsandi vítamíndrykkur

Ég er sko ekkert að ýkja með því að nefna þennan drykk vítamíndrykk því hann er stútfullur af hollustu. Ég ætti kannski frekar að nefna þennan drykk kvennamjöð þar sem hann er sérstaklega góður fyrir konur! Þið getið annað hvort búið til ykkar eigin safa í safapressu (sem er auðvitað best) en það næst besta væri að kaupa lífrænt framleidda safa í heilsubúð og blanda svo saman í blandara. Rauðrófusafinn er mjög járnríkur og ásamt appelsínusafanum gerir drykkinn súper járnríkann. Rauðrófusafi er líka góður til að hreinsa lifrina og meltingarfærin og inniheldur fólin sem er gott fyrir ófrískar konur. Ekkert grænmeti og enginn ávöxtur inniheldur jafn mikið af andoxunarefnum og bláber. Þau hjálpa til við að sporna gegn alls kyns sjúkdómum, þar með talið hjartasjúkdómum og krabbameini. Perur og ananas hjálpa til við að hreinsa innyflin sem og meltingarfærin. Bananar gefa manni góða orku og innihalda allar 8 af þeim aminósýrum sem líkaminn getur ekki framleitt sjálfur. Það væri hreinlega vitleysa að byrja ekki alla daga á því að drekka þennan drykk!


Vítamíndrykkur fullur af járni

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan
 • Hráfæði

Járnríkur og hreinsandi vítamíndrykkur

Fyrir 2

Innihald

 • 1 vel þroskuð pera, afhýdd, þvegin, kjarnhreinsuð og skorin í stóra bita
 • 1 lítill vel þroskaður banani
 • 1 lítil rauðrófa, skræld og skorin í stóra bita (eða 25 ml hreinn rauðrófusafi (enska: betroot juice))
 • Fjórðungur ananas (afhýddur, kjarnhreinsaður og skorinn gróft) eða 100 ml hreinn ananassafi
 • 1 lúka fersk bláber (eða frosin)
 • Safi úr einni appelsínu eða 25 ml hreinn appelsínusafi

Aðferð

 1. Ef notaður er blandari:
 2. Afhýðið peruna, þvoið, kjarnhreinsið og skerið í stóra bita.
 3. Skrælið rauðrófuna og skerið í stóra bita.
 4. Afhýðið ananasinn, kjarnhreinsið og skerið í stóra bita.
 5. Setjið peru, rauðrófu, ananas, banana, bláber og appelsínusafa í blandara og maukið í eina mínútu eða þangað til silkimjúkt..
 6. Ef notuð er safapressa: Meðhöndlið peruna, rauðrófuna og ananasinn eins og lýst hér að ofan og setjið í safapressu. Hellið svo í blandara.
 7. Bætið banana, bláberjum og appelsínusafa út í blandarann og maukið í um 30 sekúndur eða þangað til silkimjúkt.
 8. Hellið í glös og berið fram strax.

Gott að hafa í huga

 

 • Nota má eplasafa í stað ananassafans.