Jarðarberjahrákökur

Þessar krúttlegu hráfæðissmákökur eru upplagðar fyrir Valentínusardaginn. Þær eru líka afskaplega hollar og vítamínríkar, fullar af próteini, hollri fitu, andoxunarefnum og trefjum. Það má svo sannarlega færa elskunni sinni svona smákökur í bólið með góðri samvisku (og ekki bara á Valentínusardaginn, kökurnar gleðja allt árið um kring)!


Krúttlegar hráfæðissmákökur fyrir Valentínusardaginn

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan
 • Hráfæði

Jarðarberjahrákökur

20-25

Innihald

Deig

 • 20 g cashewhnetur
 • 110 g pekanhnetur
 • 130 g sólblómafræ
 • 6 msk kakó
 • 2 msk haframjöl
 • ½ tsk chiafræ
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 5 dropar hreinir stevíudropar eða 6 msk hlynsíróp
 • 2 msk vatn ef notaðir eru stevíudropar
 • 1 tsk vanilludropar úr heilsubúð

Fylling

 • 2 bananar
 • 150 g frosin jarðarber (látið þiðna alveg)
 • 80 ml kókosolía

Aðferð

 1. Byrjið á fyllingunni: Látið jarðarberin þiðna alveg og hitið kókosolíuna varlega svo hún verði fljótandi. Þegar jarðarberin eru þiðin skuluð þið setja þau í matvinnsluvél og mauka vel. Bætið því næst kókosolíu og bönunum út í og maukið alveg þangað til silkimjúkt. Hellið fyllingunni í um 20x20 cm hreint form, sléttið vel úr og setjið inn í frysti í um 30-40 mínútur. Best er ef fyllingin er stíf en ekki gaddfrosin.
 2. Setjið cashewhnetur, pekanhnetur, sólblómafræ, kakó, haframjöl, chiafræ og salt í matvinnsluvél og notið púlshnappinn til að saxa hráefnið saman.
 3. Bætið stevíudropunum út í ásamt vatni og vanilludropum. Notið aftur púlshnappinn þangað til auðvelt er að klípa hráefnið saman með fingrunum. Gætið þess að mauka ekki of mikið.
 4. Fletjið deigið út á hreina, litla bökunarplötu eða skurðbretti þannig að það verði slétt og um 1 cm á þykkt. Þrýstið litlum smákökumótum (t.d. hjörtum, hringjum) ofan í deigið og setjið svo á disk.
 5. Takið fyllinguna úr frystinum og gerið eins með sama smákökumóti. Setjið fyllinguna ofan á hjartað eða annað sem þið voruð búin að skera út. Setjið svo hjartalok ofan á og kælið í smá stund í frystinum. Borðið kalt eða hálffrosið.
 6. Ef afgangur er af fyllingunni er gott að nota hana í þeyting eða sem ís.

Gott að hafa í huga

 • Mikilvægt er að jarðarberin séu vel þiðin og helst volg áður en kókosolían kemst í snertingu við þau því annars harðnar olían og verður kekkjótt.
 • Nota má vel þroskað mangó í staðinn fyrir banana.
 • Nota má hindber eða brómber í staðinn fyrir jarðarber.