Jarðarberja- og banana íspinnar
Þetta eru aldeilis frábærlega hollir íspinnar. Þegar ég dreg þessa úr frystinum brosa bæði krakkar og fullorðnir út að eyrum og sleikja út um. Það er alltaf gaman að borða íspinna og þessir eru líka svo einstaklega léttir og fitusnauðir, fullkomnir sem góðgæti án samviskubits. Jarðarber eru súperholl, innihalda mikið af C vítamíni sem og andoxunarefnum og eru líka góð fyrir augnheilsu okkar. Einnig eru jarðarber talin hafa vörn gegn gigt. Athugið að ef ég nota frosin jarðarber finnst mér betra að sjóða þau með agavesírópi (þannig að úr verði mauk) en ef þið eigið fersk og sæt jarðarber, þarf alls ekki að sjóða þau (þau eru líka mun hollari svoleiðis). Þið getið líka látið frosnu berin þiðna alveg áður en þið blandið þeim við annað hráefni.
Athugið að þið þurfið matvinnsluvél eða blandara til að útbúa þessa uppskrift en það þarf ekki ísvél.
Litríkir og hollir íspinnar fyrir alla
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Jarðarberja- og banana íspinnar
Innihald
- 250 g jarðarber, fersk eða frosin
- 1 banani, vel þroskaður
- 100 ml sojamjólk eða önnur mjólk
- 1 msk kókosolía
- 2-3 msk agavesíróp
Aðferð
- Setjið jarðarberin í pott ásamt agavesírópinu og kókosolíunni. Látið suðuna koma upp og leyfið jarðarberjunum að malla í um 15-20 mínútur.
- Kælið vel.
- Setjið jarðarberin í blandara eða matvinnsluvél ásamt sojamjólkinni og banananum.
- Maukið í um 30 sekúndur á fullum krafti.
- Smakkið til með meira agavesírópi ef þarf.
- Hellið ísblöndunni í íspinnaform. Sláið formunum niður í borð nokkrum sinnum til að loftbólurnar fari úr.
- Frystið.
Gott að hafa í huga
- Ef jarðarberin eru ekki soðin, má setja allt saman í matvinnsluvélina/blandarann og mauka á fullum krafti í 1 mínútu.
- Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
- Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má vel þroskað og sætt mango í staðinn fyrir banana.
Ummæli um uppskriftina
29. jún. 2011
Hæ Sigrún, las flutningráðin þín og fór svo að skoða ísuppskriftir og langaði að segja frá "afganga" frostpinnum sem eru mjög vinsælir á þessu heimili. Taka alla berjaafganga úr frystinum (hjá okkur eru af einhverjum ástæðum alltaf pokar með smá í, útum allan frysti), setja í skál, leyfa að þiðna smá, bæta smá agave sírópi og sítrónusafa útí, skella svo í pinnabox og frysta.
kveðja, Rakel
30. jún. 2011
Brilliant :)
11. ágú. 2011
Þessi uppskrift er æðisleg! Ég átti reyndar ekki jarðaber, heldur hindber - bragðið var frábært. Ég var reyndar ekki sátt við fræin/steinana í hindberjunum, fann frekar mikið fyrir þeim. Ertu með hugmynd um hvernig væri hægt að losna við þau?
Kv, Maja
11. ágú. 2011
Það er best að mauka hindberin sér, fyrst, pressa í gegnum fíngata sigti og blanda svo út í drykkinn undir lokin og hræra saman :) Eða þannig blanda ég oft hindber út í drykki.
11. ágú. 2011
Takk, ég prófa það :)
20. apr. 2012
úú líst vel á afgangs-pinnana hér fyrir ofan, prófa þá við tækifæri :) annars var ég að prófa þessa jarðarberja-banana íspinna, eru í frystinum núna :) ég er með 2 spurningar:
eru hindber súrari en jarðarber? orðin frekar þreytt á jarðarberjum í smoothie-a og langar að breyta til.
og
ef þú sýður berin ekki, notarðu þá samt kókosolíuna?
20. apr. 2012
 Hindber eru súrari en jarðarber en ef þú notar t.d. smávegis eplasafa út í smoothie-inn kemur það ekki að sök. Svo geturðu líka notað frosið mango eða melónur. 
Ég nota kókosolíuna sama hvort ég er með frosin eða ófrosin ber. Það hjálpar aðeins við að gera frostpinnana mýkri.