Ítalskar súkkulaði- og möndlusmákökur

Ég fékk þessa uppskrift úr ítölsku matreiðslubókinni hennar Elvu vinkonu sem ég var einu sinni með í láni (sko ég var með bókina að láni, ekki Elvu). Á þeim tíma vorum við nágrannar í London og eitt sinnið þegar hún fór til Íslands þá fór ég í íbúðina hennar til að vökva blómin...það voru reyndar engin blóm en ég vissi af þessari bók og ákvað að fá hana lánaða Ég man ekki lengur hvað bókin heitir en hún er búin að vera ófáanleg í mörg ár. Þetta eru æðislegar smákökur, frábærar með sterku kaffi (eða bambukaffi fyrir þá sem þola ekki koffein vel, eins og mig). Það má sleppa kakóinu eða nota carob í staðinn. Smákökurnar eru glúteinlausar og mjólkurlausar.

Athugið að þið þurfið hrærivél og handhrærivél og einnig er gott ef þið eigið rjómasprautupoka með 1 sm gati (en ekki nauðsynlegt).


Kökurnar urðu svolítið ljótar því ég á ekki rjómasprautupoka

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur

Ítalskar súkkulaði- og möndlusmákökur

Gerir um 24 smákökur

Innihald

  • 150 g möndluflögur, malaðar
  • 70 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 2 msk kakó (eða carob)
  • 2 stórar eggjahvítur
  • 1 tsk möndludropar úr heilsubúð (má sleppa)
  • 2 msk muldar möndluflögur (má sleppa)

Aðferð

  1. Þurrristið möndlurnar á pönnu (án olíu) í nokkrar mínútur eða þangað til gullnar. Kælið.
  2. Setjið ristuðu möndlurnar og 40 g af rapadura hrásykrinum í matvinnsluvél. Malið fínt en án þess að möndlurnar verði kekkjóttar eða olíukenndar.
  3. Setjið í skál og blandið kakói saman við ásamt 2 msk af hrásykrinum. Hrærið vel og setjið til hliðar.
  4. Stífþeytið eggin í hreinni skál þannig að toppar fari að myndast og haldi sér.
  5. Bætið afganginum af sykrinum úti í matskeið fyrir matskeið og þeytið á meðan.
  6. Bætið möndludropunum varlega saman við.
  7. Setjið möndlu/kakó blönduna varlega út í stífþeyttu eggjahvíturnar og veltið varlega til með sleikju (ekki hræra) þangað til allt blandast saman.
  8. Setjið deigið í rjómasprautupoka með 1 sm gati (eða verið lummuleg eins og ég, sem átti ekki svona poka og setjið kökurnar á plötu með teskeið). Búið til um 24 stykki með 2,5 sm bili á milli.
  9. Myljið 2 msk af möndluflögum og setjið ofan á kökurnar ef þið viljið.
  10. Bakið við 160°C í um 15-17 mín eða þangað til kökurnar virðast stökkar og brúnar.

Gott að hafa í huga

  • Ef þið finnið möndlumjöl í heilsubúð, má nota það í staðinn fyrir malaðar möndluflögur.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Smákökurnar má frysta en þá er best að hita þær upp í ofni í stað þess að láta þær þiðna og borða kaldar.
  • Ég nota almennt ekki mikið af eggjarauðum en egg eru dýr og ef þið viljið nýta eggjarauðurnar má frysta þær og nota síðar til að þykkja súpur.