Ískonfekt

Ískonfekt er alltaf svo skemmtilegt finnst mér því bæði er um að ræða konfekt með t.d. súkkulaði utan um og svo er maður með sörpræs líka því konfektmolinn er frosinn. Ég man eftir því fyrir mörgum, mörgum árum síðan þegar allar frosnu súkkulaðistangirnar voru að koma á markað. Ég var þá á vinnustað þar sem var stór frystir og frystirinn var fullur af frosnum Mars- og Snickersstöngum og hvað þetta heitir allt saman. Ég veit ekki hvers vegna, en sumir héldu að frosið sælgæti innihéldi færri hitaeiningar (ekki spyrja mig hvers vegna samstarfsfélagar héldu það)...og þessi frábæra ranghugmynd viðhélst í heilt sumar (ég ákvað að segja ekki eitt orð og glotti í laumi). Nema hvað...eftir sumarið höfðu ALLIR þessir starfsmenn þyngst um einhver kíló og sumir dálítið mörg. Enginn skildi neitt í neinu (þrátt fyrir að borða 1-2 svona stangir á dag ofan á allt annað sem fólkið borðaði)...Að lokum lagði starfsfólkið saman tvo og tvo og og frosnu súkkulaðistangirnar sáust aldrei aftur.

Þetta ískonfekt sem þið fáið hér uppskrift að, á ekkert skylt við svona óhollustu eins og ég var að lýsa enda innihalda cashewhnetur holla fitu og súkkulaði inniheldur andoxunarefni. Mikilvægt er að nota gott súkkulaði (eins og t.d. 70% frá Green & Black's) en að sjálfsögðu má einnig nota carob eða hvítt súkkulaði ef þið þolið kakóið illa. Nota má hvaða ís sem er í konfektið en mikilvægt er að ísinn sé algjörlega gaddfrosinn þegar þið farið að setja brætt súkkulaði utan á hann. Best er að nota sílikonmót fyrir konfekt til að útbúa ískonfektið.

Athugið að best er að leggja cashewhneturnar í bleyti í nokkrar klukkustundir, jafnvel yfir nótt.


Skemmtileg tilbreyting í konfektflórunni

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Ískonfekt

Gerir um 25-30 mola

Innihald

  • 125 g cashewhnetur, lagðar í bleyti
  • 60 g döðlur, saxaðar gróft
  • 60 ml appelsínusafi (eða mangosafi)
  • 1 banani, vel þroskaður
  • 2 msk agavesíróp
  • 2 msk kókosolía
  • 100 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri

Aðferð

  1. Leggið cashewhnetur í bleyti í nokkrar klukkustundir (eða yfir nótt).
  2. Saxið döðlurnar og leggið þær í bleyti í appelsínusafanum.
  3. Hellið vatninu af cashewhnetunum og setjið þær í matvinnsluvél. Blandið á fullum krafti í a.m.k. 1 mínútu.
  4. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og blandið áfram í 30 sekúndur. Bætið kókosolíunni og agavesírópinu út í og haldið áfram að mala í nokkrar sekúndur.
  5. Skafið hliðarnar aftur og blandið í 30 sekúndur.
  6. Hellið appelsínusafanum út í, ásamt döðlunum og blandið áfram í um 1 mínútu eða þangað til cashewblandan er orðin mjúk.
  7. Bætið banananum út í og blandið áfram í um 10 sekúndur eða þangað til blandan er silkimjúk.
  8. Hellið ísnum í konfektmót úr sílikoni ef þið eigið svoleiðis (svo að þið fáið litla bita). Frystið í um 3-4 tíma
  9. Ef þið eigið ekki sílíkonmót, færið ísinn þá yfir í ísvél í 30 mínútur. Setjið svo ísinn í plastbox og inn í frysti.
  10. Ef ekki er notuð ísvél eða sílikonmót má frysta ísinn í plastboxi og hræra í ísnum á um 30 mínútna fresti í um 3-4 tíma. Áður en ísinn harðnar alveg er best að skafa litlar kúlur með melónuskeið. Setjið kúlurnar í box og frystið helst yfir nótt eða þangað til kúlurnar eru grjótharðar.
  11. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði. (Setjið svolítið vatn í lítinn pott. Setjið skál ofan á pott þannig að skálin sitji á brúnunum. Setjið súkkulaðið ofan í skálina og bræðið yfir vægum hita). Gætið þess að ofhita ekki súkkulaðið og það má alls ekki fara dropi af vatni ofan í skálina.
  12. Takið súkkulaðið af hitanum og látið það kólna í 5 mínútur.
  13. Takið ískúlurnar/ískonfektið úr frystinum (eina í einu) og dýfið með skeið í súkkulaðið eða þekið hverja kúlu með súkkulaði (hellið með teskeið yfir).
  14. Látið storkna á bökunarpappír í nokkrar mínútur og setjið svo aftur inn í frysti.
  15. Áður en ískonfektið er borðað þarf að láta það þiðna í um 5-10 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Það má dýfa kúlunum t.d. í kókosmjöl eða smátt saxaðar hnetur áður en súkkulaðið harðnar alveg.
  • Nota má hvaða ís sem er inn í konfektið en mikilvægt er að hann sé gaddfrosinn áður en súkkulaðið fer utan um hann.
  • Nota má carob eða hvítt súkkulaði í staðinn fyrir súkkulaði.
  • Nota má hlynsíróp í stað agavesíróps.
  • Nota má macadamia hnetur í staðinn fyrir cashewhnetur.