Irio (kartöflustappa með lauk og baunum)

Þessi réttur er eins afrískur og hugsast getur. Þetta er hefðbundinn matur hjá Kikuyu ættbálkinum, svona eins og grjónagrautur er hjá okkur. Irio er afskaplega milt og gott fyrir magann. Ég reyni alltaf að fá mér Irio í hvert skipti sem ég fer til Afríku og það er gaman að smakka á sem flestum stöðum því irio getur verið mjög misjafnt eftir svæðum og ættbálkum. Stundum fær maður irio með rauðlauk, stundum með venjulegum lauk og oft með spínati. Ég hef líka fengið irio með nýrnabaunum. Kenyabúar eru afar nýtnir eins og flestir íbúar Afríku og ef afgangur er af irio er hann gjarnan mótaður í buff og steiktur á pönnu í olíu. Ég hef ekki gert það en það væri örugglega hægt að baka irio buff í ofni! Yfirleitt er maísinn frekar harður í irio og ég sakna þess þegar ég geri hann sjálf að fá ekki harðar maísbaunir (ég hef bara fundið þessar hörðu í Rwanda og Kenya). Til gamans má geta þess að irio þýðir „matur” á Kikuyu máli.


Irio, afar vinsæll, afrískur réttur

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Irio (kartöflustappa með lauk og baunum)

Fyrir 4 -6 sem meðlæti

Innihald

 • Fjórðungur laukur, saxaður smátt
 • 1 tsk kókosolía
 • 375 g kartöflur, skrældar og brytjaðar gróft
 • 75 g grænar baunir, frosnar (enska: pees)
 • 75 g spínat, frosið eða ferskt (ef frosið, látið þiðna og kreistið vatnið úr)
 • 75 g maískorn, frosið
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • Smá klípa svartur pipar

Aðferð

 1. Afhýðið laukinn og skrælið kartöflurnar. Saxið laukinn smátt og kartöflurnar gróft.
 2. Hitið olíuna í potti og steikið laukinn þangað til hann fer að brúnast.
 3. Bætið kartöflunum út í ásamt grænu baununum.
 4. Setjið vatn í pottinn þannig að fljóti yfir innihaldið.
 5. Sjóðið þangað til kartöflurnar eru orðnar frekar mjúkar (til að hægt sé að stappa þær).
 6. Sigtið spínatið og kreistið allt vatn úr. Saxið og setjið út í pottinn ásamt maískornunum.
 7. Látið malla í 2 mínútur.
 8. Hellið öllu vatni af.
 9. Stappið vel þangað til irioið er orðið grænt.

Gott að hafa í huga

 • Nota má rauðlauk og nýrnabaunir í irioið.