Indverskur réttur með sætum kartöflum og spínati
18. ágúst, 2008
Afar mildur, og bragðgóður réttur. Hann er upplagður fyrir þá sem eru blóðlitlir því spínatið inniheldur hellings járn og sætar kartöflur og chili pipar inniheldur C vítamín sem hjálpar til við upptöku á járni í líkamanum. Svo er rétturinn líka trefja- og próteinríkur. Það sakar heldur ekki að rétturinn er ódýr þannig að hér er kominn afar sniðugur námsmannakvöldmatur. Um að gera að búa til heilan helling í einu og frysta í nokkrum skömmtum! Þið fáið alveg örugglega hærra á prófunum heldur en ef þið borðið skyndibitamat . Ég lofa. (Í smáa letrinu stendur samt að þið þurfið líka að vera dugleg að læra).
Sleppa má rækjumaukinu ef þið eruð jurtaætur (enska: vegan) og nota má 1 msk af tamarisósu í staðinn.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
Indverskur réttur með sætum kartöflum og spínati
Fyrir 3-4
Innihald
- 500 g sætar kartöflur, skrældar og saxaðar gróft (munnbitastærð)
- 1 tsk kókosolía
- 1 rauðlaukur (eða venjulegur)
- 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
- 1 tsk rækjumauk (enska: shrimp paste) eða 1 msk fiskisósa
- 1 tsk turmeric
- Smá klípa saffranþræðir (má sleppa)
- 1 rauður chili pipar, fræhreinsaður og saxaður gróft
- 350 ml kókosmjólk
- 250 g spínat, ferskt eða frosið, saxað gróf
Aðferð
- Skrælið sætu kartöflurnar og skerið í grófa bita (munnbitsstærð). Sjóðið kartöflurnar í potti í um 10 mínútur. Setjið til hliðar.
- Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt.
- Skerið chili pipar langsum, fræhreinsið og saxið smátt.
- Hitið kókosolíuna á stórri pönnu.
- Hitið laukinn og hvítlaukinn í nokkrar mínútur. Ef meiri vökva vantar á pönnuna notið þá vatn.
- Bætið chili piparnum við og hitið í 2 mínútur.
- Setjið turmeric, saffranþræði og rækjumauk eða fiskisósu út á pönnuna og hrærið vel.
- Hellið kókosmjólkinni yfir og látið malla við lágan hita í nokkrar mínútur.
- Bætið sætu kartöflunum við og hitið vel.
- Saltið eftir smekk.
- Kreistið vatnið úr spínatinu (ef það var frosið) og saxið gróft. Ef þið notið ferskt spínat saxið það þá gróft.
- Bætið spínatinu út í og hitið í um 2-3 mínútur með lokinu á.
Gott að hafa í huga
- Berið fram með chapati brauði og raita gúrkusósu. Einnig er gott að bera fram hýðishrísgrjón eða bygg með réttinum.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
- Rækjumauk fæst stundum í stærri matvöruverslunum, sælkeraverslunum og verslunum sem sérhæfa sig í austurlenskri matvöru.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
17. apr. 2011
Mjög einfalt og gott.
02. nóv. 2011
Ótrúlega góður réttur og auðveldur í matreiðslu. Nú horfa kona og dóttir á mig með lotningu í eldhúsinu og halda báðar að ég kunni að elda alvöru grænmetisfæði :) þökk sé Sigrúnu.
Ps. Svo virðist vera sem kryddið Cummin sé á Íslandi ýmist selt undir því nafni eða undir heitinu "Broddkúmen".
02. nóv. 2011
Svakalega gaman að heyra og takk fyrir að deila með okkur :)
Sko 'kúmen/broddkúmen' og 'cumin' (öðru nafni jeerah) er ekki alveg það sama. Kúmen er notað í íslenskar kringlur en cumin er notað í t.d. indveska rétti.
03. nóv. 2011
Kúmen sem er notað í íslenskar kringlur og íslenskt brennivín er eitt en broddkúmen annað. A.m.k. er kryddglasið sem ég keypti frá Pottgöldrum bæði merkt sem Cumin og Broddkúmen og sama er að segja um annað krydd sem er með merkingum á íslensku og fæst hér í verslunum.
Venjulegt kúmen vex ágætlega á Íslandi þar sem það hefur verið notað öldum saman. Það finnst oft í tóftum gamalla eyðibýla, a.m.k. Norðanlands, svo það hefur greinilega verið útbreitt. Ég hef oftar en einu sinni heyrt þá kenningu að kúmen hafi borist til landsins með munkum og það hafi svo verið ræktað í grasa og kryddgörðum íslensku miðaldaklaustranna.
Orðið "broddkúmen" er sennilega nýyrði fundið upp af grasafræðingum og/eða kaupmönnum til þess að greina það frá þessu "venjulega".
03. nóv. 2011
Áhugavert. Þetta á ekki eftir að minnka misskilninginn hjá Íslendingum ha ha.
03. nóv. 2011
Misskilningur, já heldur betur um allan heim, alls konar nafnarugl, jafnvel innan sama tungumáls. Það er því ástæða fyrir því að við notumst við flokkunarkerfi á latínu þegar við erum að tala um flóru og fánu. Kannski væri full ástæða til að setja upp vef þar sem fram kæmu heiti á helstu jutum sem notaðar eru í mat, heiti þeirra á íslensku, latínu og öðrum heimsmálum.
En hér má sjá upplýsingar um broddkúmen eins og Príma krydd á Blönduósi setur það fram:
http://www.prima.is/nanarvorur.asp?id=nanar_cumin.jpg
03. nóv. 2011
Takk fyrir þetta innlegg...áhugavert að lesa :)