Indverskur fiskiréttur

Þetta er einn af uppáhalds fiskiréttunum hans Jóhannesar. Sósan hentar einnig fyrir kjúkling og grænmeti því hún er mild og bragðgóð.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta

Indverskur fiskiréttur

Fyrir 2-3

Innihald

 • 500 g ýsuflök, roð- og beinhreinsuð
 • 1 laukur, afhýddur og saxaður gróft
 • 1 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • 1 tsk ferskt engifer, afhýtt og rifið eða saxað smátt
 • 2 lárviðarlauf
 • 1 tsk kókosolía
 • 2-3 msk mangomauk (enska: mango chutney)
 • 2 tsk maísmjöl (eða arrow root)
 • 200 g magur rjómaostur (t.d. Philadelphia Light) eða Curd ostur (hleypiostur, ystingur)
 • 100-200 ml léttmjólk
 • 2 tsk nigella fræ
 • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1 tsk steinselja
 • 2 tsk karrí
 • 1 tsk fish masala (má sleppa)
 • Smá klípa svartur pipar

Aðferð

 1. Afhýðið lauk, engifer og hvítlauk og saxið smátt.
 2. Hitið kókosolíu á stórri pönnu og látið karrí, lauk, hvítlauk, engifer og lárviðarlauf krauma í u.þ.b. 3 mínútur. Notið vatn til viðbótar ef þarf meiri vökva á pönnuna.
 3. Takið lárviðarlaufið upp úr og fleygið því.
 4. Setjið magra rjómaostinn (eða curd ostinn) út í og hrærið í þar til hann bráðnar
 5. Bætið mjólk, maísmjöli, nigella fræjum og mangomauki saman við.
 6. Sjóðið við vægan hita í 2 mínútur. Hrærið í allan tímann. Ef ykkur finnst sósan of þykk bætið þá meiri mjólk út á pönnuna.
 7. Kryddið með steinselju, karríi, fish masala, salti og pipar.
 8. Skerið fiskiflökin í bita.
 9. Setjið fiskinn út í sósuna og látið sjóða við vægan hita í 7-10 mínútur með lokinu yfir pönnunni.

Gott að hafa í huga

 • Berið fram með chapati brauði og Coriander og papya raita.
 • Sósan þynnist aðeins eftir að fiskurinn er kominn út í en ef ykkur finnst hún ennþá of þykk, bætið þá svolítilli mjólk út í.
 • Berið fram með byggi eða hýðishrísgrjónum.
 • Það er líka gott að bera fram gróft snittubrauð með þessum rétti.
 • Nigella fræ (svört fræ sem eru eins og tár í laginu og eru oft í naan brauðum) fást í verslunum sem sérhæfa sig í austurlenskum matvörum).
 • Curd ostur fæst stundum í sælkeraverslunum.
 • Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, sojamjólk eða haframjólk í staðinn fyrir léttmjólk.
 • Nota má jurtasmurost í staðinn fyrir rjómaost.

Ummæli um uppskriftina

gudnyar
18. nóv. 2010

Svaka góður fiskréttur sem er í miklu uppáhaldi og hefur verið reglulega á mínum borðum frá því ég smakkaði hann fyrst ;o)

http://www.flickr.com/photos/gudnyar/3250847661/in/set-72157613331335979/

sigrun
25. feb. 2014

Flott að heyra og fín myndin með, takk :)

gestur
25. feb. 2014

Þessi réttur er rosalega góður, mun vera eldaður oft á mínu heimili framvegis :)

sigrun
25. feb. 2014

Æðislegt, takk fyrir að deila með okkur :)