Indverskt Pachadi með blómkáli

Þessi réttur er hefðbundinn réttur frá Kerala í Suður-Indlandi og í honum er blómkálið látið marinerast í súrmjólk (eða jógúrt) áður en það er eldað. Þetta er mjög fínn og léttur réttur í magann og ekkert flókið að búa hann til. Athugið þó að blómkálið þarf að marinerast í 2 tíma áður en það er eldað. Ég hef reynt að nota sojajógúrt í þennan rétt en hann varð ekki eins góður. Rétturinn hentar sem meðlæti eða létt máltíð.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta

Indverskt Pachadi með blómkáli

Fyrir 2

Innihald

 • 375 g blómkál, brotið í sprota (þyngd eftir snyrtingu)
 • 150 ml súrmjólk
 • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt) 
 • 1 tsk kókosolía
 • 1 laukur, afhýddur og sneiddur þunnt
 • 2 hvítlauksrif, afhýdd og söxuð smátt
 • 1 msk ferskt engifer, saxað smátt eða rifið á rifjárni
 • 1 tsk gul sinnepsfræ (eða brún)
 • 1 tsk brún sinnepsfræ
 • 0,5 tsk turmeric
 • 0,5 tsk karrí
 • 25 kókosmjöl
 • 50-150 ml vatn
 • 2 msk ferskt coriander, saxað
 • 0,5 tsk svartur pipar

Aðferð

 1. Brjótið blómkálið í litla sprota og setjið í skál ásamt súrmjólk, salti og pipar. Blandið vel saman og geymið inn í ísskáp í 2 tíma, með plastfilmu yfir.
 2. Afhýðið lauk, hvítlauk og engifer. Sneiðið laukinn þunnt og saxið hvítlauk og engifer smátt.
 3. Hitið kókosolíuna á stórri pönnu. Steikið laukinn, hvítlaukinn og engiferið í um 8 mínútur eða þangað til laukurinn er orðinn mjúkur. Ef meiri vökva þarf á pönnuna bætið þá nokkrum matskeið af vatni út á hana.
 4. Bætið sinnepsfræjunum út í ásamt turmerici, karríi og kókosmjöli og hitið í 3 mínútur. Hrærið allan tímann
 5. Bætið blómkálinu út í ásamt súrmjólkinni og vatninu (setjið minna en meira af vatni og bætið við ef þarf).
 6. Hitið að suðu og minnkið svo hitann og látið malla með lokinu á í 12 mínútur eða þangað til blómkálið er orðið soðið.
 7. Takið lokið af, bragðið til og bætið við kryddi ef þarf.
 8. Hækkið hitann og bætið söxuðum corianderlaufum við. Hrærið vel.
 9. Sjóðið í 5-10 mínútur við vægann hita eða þangað til mesti vökvinn hefur gufað upp.

Gott að hafa í huga

 • Berið fram með chapati brauði, raita gúrkusósu, byggi eða hýðishrísgrjónum.
 • Nota má súrmjólk eða AB mjólk í staðinn fyrir jógúrt.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Sinnepsfræ (enska: mustard seeds) fást í flestum stærri matvöruverslunum eða í verslunum sem sérhæfa sig í austurlenskri matvöru.