Hummus með grillaðri papriku

Góður hummus sem passar með nánast öllu brauði og kexi og er fín tilbreyting frá hefðbundnum hummus. Paprikur eru fullar af C vítamíni og andoxunarefnum og svo er liturinn á hummusinum líka svo fallegur svona appelsínurauður. Ekta til að bera fram undir beru lofti þegar himininn er blár og grasið er grænt! Þessi uppskrift kemur upprunalega frá Nigellu Lawson (úr Nigella Express) og ég breytti henni lítillega. Til dæmis sleppti ég rjómaostinum sem átti að fara í uppskriftina og fannst hann alls ekki vanta í hummusinn. Þið getið þó bætt við 2 msk af rjómaosti í maukið ef þið viljið. Einnig grillaði ég sjálf paprikurnar því ég vil ekki kaupa grillaðar paprikur í krukku (þær eru yfirleitt sykurbættar). Best er að nota matvinnsluvél til að mauka en það má bjarga sér með blandara.


Dásamlega litríkur og hollur hummus

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Hummus með grillaðri papriku

Fyrir 4-5 sem meðlæti

Innihald

 • 5-6 stórar, rauðar paprikur (eða 350 g tilbúnar og grillaðar)
 • 250 g kjúklingabaunir (þegar búið er að hella vatninu af)
 • 1 tsk paprikuduft
 • 2 msk ólífuolía
 • 1-2 msk vatn
 • 1 tsk límónusafi
 • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð

 1. Fræhreinsið hverja papriku og skerið í helminga.
 2. Leggið hverja sneið ofan á bökunarplötu sem búið er að klæða með bökunarpappír. Snúið hýðinu upp.
 3. Grillið paprikurnar í efstu rim í ofninum í um 30-40 mínútur á 200-220°C. Fylgist með paprikunum eftir um 30 mínútur. Þær mega gjarnan vera orðnar brenndar og svartar en þó ekki þannig að þær séu farnar að þorna eða brenna í gegn. Það er bara hýðið sem má brenna.
 4. Takið paprikurnar úr ofninum með töng og setjið í plastpoka. Lokið fyrir og geymið í 5-10 mínútur.
 5. Takið hýðið af og fleygið því.
 6. Setjið paprikurnar í matvinnsluvél ásamt ólífuolíu, límónusafa, salti, paprikudufti og kjúklingabaunum.
 7. Maukið allt  saman í um 10 sekúndur.
 8. Bætið við meira vatni ef þarf.
 9. Berið fram með góðu brauði.

Gott að hafa í huga

 • Ef þið finnið ósykurbættar, lífrænar ræktaðar og grillaðar paprikur er sjálfsagt að flýta fyrir sér með því að kaupa þær.

Ummæli um uppskriftina

Pála
24. okt. 2011

Er hægt að geyma þetta í krukku í einhvern tíma?
Kv. Pála

sigrun
24. okt. 2011

Þú getur geymt maukið í krukku í um 2 vikur í ísskápnum en þú getur líka fryst maukið í smá skömmtum til að afþýða þegar hentar :)

Magnea86
17. sep. 2012

Gerði þetta um helgina, æðisleg tilbreyting við hefðbundna hummusið.

takk fyrir mig :)

sigrun
17. sep. 2012

Dásamlegt :)

Þórdís Hrefnudóttir Bjartmarsdóttir
25. apr. 2017

Mjög áhugaverð síða og gaman að skoða hana.

sigrun
26. apr. 2017

Takk fyrir og vertu velkomin í hópinn :)