Hummus

Við fáum okkur afskaplega oft hummus og nýbakað brauð, með fullt af grænmeti og það er ofsalega góð máltíð. Maður verður alveg pakksaddur. Hér fyrir neðan er sú uppskrift af hummus sem ég nota hvað mest en hún er samsuða úr nokkrum, það tók mig svolítinn tíma að fikra mig áfram með samsetninguna þannig að ég yrði ánægð með hana. Ég er undir miklum áhrifum af þeim Miðjarðarhafs- og Mið-Austurlandaveitingastöðum sem við höfum heimsótt hvað mest í London eins og Yalla Yalla, Gallipoli, Souk og fleiri sem allir bjóða upp á frábæran hummus. 

Athugið að uppskriftin er merkt sem án hneta en hún inniheldur tahini sem er unnið úr sesamfræjum sem sumir hafa ofnæmi fyrir.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta en með fræjum
  • Án hneta
  • Vegan

Hummus

Einn skammtur fyrir 3-4

Innihald

  • 1 dós soðnar/niðursoðnar kjúklingabaunir (geymið vökvann)
  • 1-2 stór hvítlauksrif
  • 2 msk tahini (sesammauk)
  • 1,5 msk sítrónusafi
  • 1 tsk tamarisósa
  • Smá klípa cayennepipar eða paprika
  • 0,25 tsk cumin (ekki kúmen)
  • 20 ml af vatni eða sojamjólk 
  • 40 ml ólífuolía (sumir nota meiri ólífuolíu)
  • Salt (Himalaya eða sjávarsalt) eftir smekk
  • Svartur pipar eftir smekk

Aðferð

  1. Hellið helmingnum af vatninu af kjúklingabaununum og setjið þær í matvinnsluvél ásamt afganginum af vökvanum. Maukið í um 10 sekúndur.
  2. Afhýðið hvítlaukinn, saxið hann smátt/pressið hann og bætið honum út í ásamt tahini, sítrónusafa, tamarisósu, cayennepipar og cumin.
  3. Maukið allt saman í um 30 sekúndur eða skemur ef þið viljið grófari áferð.
  4. Kryddið með meiri tamarisósu og svörtum pipar. Einnig má bæta aðeins við af tahini ef þið viljið meira bragð af því.
  5. Á meðan vélin vinnur skuluð þið hella ólífuolíunni út í hummusinn í mjórri en stöðugri bunu. Ef þið viljið hummusinn þynnri má bæta vatni eða sojamjólk út í.
  6. Berið fram í skál og dreifið smá klípu af cayenne pipar yfir. Einnig er gott að setja 1 tsk af ólífuolíu yfir hummusinn ásamt kjúklingabaunum og coriander ef þið viljið.

Gott að hafa í huga

  • Berið fram með grófu nýbökuðu brauði, eða grófu speltbrauði og fullt af grænmeti; gúrkum, tómötum, maískorni, papriku, sveppum, jöklakáli osfrv.
  • Hummus er æðislegur innan í vefjur.
  • Í staðinn fyrir salt og hvítlauk má nota hvítlaukssalt.
  • Það er gott að setja grænmeti, niðurskorið á diska svo að hver og einn geti raðað í sitt brauð eða í sína vefju.
  • Það er líka æðislega gott að rista pítubrauð mjög vel (eða grilla í ofni) og brjóta svo í bita og nota til að dýfa í hummusinn! Athugið þó að pítubrauð inniheldur ger.
  • Hummus passar einnig vel með hrískökum, hrökkbrauði, flatkökum og svo mætti lengi telja.
  • Tahini (sesammauk) fæst í heilsubúðum og heilsudeildum matvöruverslanna. Ég nota yfirleitt dökkt tahini en einnig má nota ljóst (ekki eins hollt og það dökka).

Ummæli um uppskriftina

Sara Björg
06. apr. 2011

Hæ hæ
Takk fyrir frábæra síðu, ég er búin að læra smátt og smátt inn á hollt matarræði með þinni hjálp og mér finnst uppskirftirnar þínar allveg æðislega góðar, miklu betri en óholli maturinn :)

Vildi bara spyrja þig hvort maður mætti frysta hummus?

sigrun
07. apr. 2011

Takk Sara :)

Sko....ef þú frystir hann fyrir lengri tíma en viku myndi ég mæla með því að mauka hvítlaukinn sér og bæta honum út í eftir að hummusinn er þiðinn. Mér finnst ekki gott að frysta hvítlauk til lengri tíma því það er eins og komi þráabragð af honum. Öðru máli gegnir um 'eldaðan' hvítlauk.

Vona að þetta hafi hjálpað.

Elísabet Thoroddsen
19. feb. 2012

Sæl og takk fyrir góðan vef!

Nú var ég að enda við að gera einmitt þessa uppskrift, sem er bæ ðe vei geggjuð. Ég ætla meðal annars að nota þetta sem nesti í vinnuna. Hvað geymist svona hummus lengi í ísskápnum?

Þúsund þakkir enn og aftur fyrir góðan vef!

sigrun
20. feb. 2012

Sæl og takk :)

Ég hef geymt hummus í viku í ísskápnum og það gæti vel verið að hann geymist lengur....Hann hefur aldrei náð svo langt (eða ég ekki gert meira en tvöfalda uppskrift) :)

710foss
06. apr. 2012

Takk fyrir góða síðu hefur hjálpað mér mjög mikið.Er hægt að nota annað en tahini í hummus ég virðist ekki þola sesomfræ mjög vel.Kveðja Ásta

sigrun
06. apr. 2012

Sæl Ásta. Tahini er dálítið stór hluti af hummusinum þ.e. gefur honum þetta einkennandi bragð og fyllingu. Þú getur sleppt því en það vantar þá svolítið upp á bragð og áferð. Bættu aðeins við af olíunni til að fá meiri fyllingu.

Þurý
08. okt. 2012

Frábær uppskrift af hummur og ég prófaði líka að setja sólþurrkaða tómata úti og var það mjög gott.

sigrun
08. okt. 2012

Já æði að setja sólþurrkaða tómata út í :) Glöð að heyra að þér líkaði uppskriftin vel :)

Þórey F
21. okt. 2012

Algjörlega frábært hummus eins og reyndar allt á síðunni þinni. Takk fyrir mig og yndisleg að fá að njóta þessara frábæru uppskrifta.

sigrun
21. okt. 2012

Takk Þórey fyrir falleg orð, það gleður mig að þér hafi líkað hummusinn vel (og hinar uppskriftirnar líka) :)

Þórunn Olsen
27. nóv. 2016

Flott síða