Hreinsandi peru-, gulrótar- og engifersafi
13. janúar, 2007
Þennan hreinsandi (detox) drykk er gott að gera í safapressu en fyrir þá sem eiga ekki slíka græju er alveg hægt að mauka perurnar í blandara en þá er drykkurinn aðeins þykkari. Lífrænt framleiddan gulrótarsafa má kaupa í heilsubúðum. Bæði perurnar og engiferið hafa hreinsandi eiginleika og gulrótarsafinn inniheldur helling af Beta Carotene (sem breytist í A vítamín í líkamanum) og K og C vítamínum en perurnar innihalda mikið af C vítamíni. A vítamín er sérstaklega gott fyrir lungnastarfsemi. Perur eru líka trefjaríkar og eru sá ávöxtur sem hvað síst kemur af stað ofnæmisviðbrögðum og eru því heppilegar fyrir ung börn. Þetta er upplagður drykkur yfir háveturinn því þarf líkaminn einmitt á þessum vítamínum að halda.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
- Hráfæði
Hreinsandi peru-, gulrótar- og engifersafi
Fyrir 2
Innihald
- 2 vel þroskaðar perur, þvegnar og skornar í stóra bita
- 50 ml gulrótarsafi (úr heilsubúð) eða 1 stór gulrót í safapressu
- 1 sm bútur ferskt engifer, rifið á rifjárni eða sett í gegnum safapressu
Aðferð
- Ef notuð er safapressa: Þvoið og skrælið gulrætur. Þvoið peruna og skerið í stóra bita. Setjið gulrætur, perur og engifer í safapressuna.
- Ef ekki er notuð safapressa: Afhýðið perurnar, kjarnhreinsið og skerið í stóra bita.
- Blandið perurnar í blandara ásamt helmingnum af gulrótarsafanum. Blandið í um 5 sekúndur.
- Blandið afganginum af gulrótarsafanum saman við og rífið engiferið á rifjárni þannig að safinn leki ofan í blandarann. Blandið í um 5 sekúndur.
- Hellið í glös og berið fram strax.
Gott að hafa í huga
- Það er mjög gott að nota í þessa uppskrift perur sem eru farnar að slappast.
- Til að gera drykkinn sætari er gott að bæta hálfu epli til viðbótar í safann.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025
Ummæli um uppskriftina
28. jan. 2012
Takk fyrir nákvæmlega sem ég var að leita að.