Hörfræskex

Hörfræ eru alveg sérstaklega holl. Þau eru trefjarík og losa um í pípulögninni okkar þannig að ekkert ætti að stíflast! Hörfræ eru einnig mikilvæg í baráttunni við að sporna gegn krabbameini t.d. í blöðruhálskirtli. Hörfræ eru líka stútfull af Omega 3 fitusýrum sem eru milvæg fyrir bein okkar, hjarta sem og í að sporna gegn of háum blóðþrýstingi (sérstaklega hjá karlmönnum). Fyrir konur á breytingaskeiðinu eru hörfræ gagnleg til að hamla gegn hitakófum. Eða svo er sagt. Þessar kexkökur eru frábærar í stað hefðbundinna brauðsneiða og eru kjörin tilbreyting þegar mann langar í eitthvað hollt en gott og saðsamt.


Gott kex fyrir maga og meltingu

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta en með fræjum
  • Án hneta
  • Vegan

Hörfræskex

Gerir um 40-45 kexkökur

Innihald

  • 180 g hörfræ
  • 65 ml tamarisósa
  • 3-4 tsk krydd t.d. steinselja, paprika, karrí
  • 4-6 msk lífrænt framleidd tómatsósa
  • 4 msk vatn (gæti þurft meira eða minna

Aðferð

  1. Setjið 60 g af hörfræjunum í matvinnsluvél eða blandara og malið fínt án þess að fræin verði olíukennd. Það ætti að vera nóg að blanda í um 15 sekúndur. Setjið í skál.
  2. Bætið ómöluðu hörfræjunum (120 gr) og kryddinu út í skálina og hrærið vel.
  3. Bætið tamarisósunni og tómatsósunni saman við og hrærið vel.
  4. Ef blandan virkar þurr getið þið sett vatnið út í. Hún á að vera þannig að hægt sé að smyrja henni gróflega en ekki þannig að hún brotni í sundur.
  5. Setjið bökunarpappír í botninn á 40 x 44 cm bökunarplötu (eða um það bil).
  6. Hellið öllu úr skálinni ofan á plötuna og þrýstið með höndunum vel ofan á blönduna þannig að hún verði jafnþunn alls staðar og nái eins vel út í kantana og þið getið. Kexið ætti að verða um 1 mm á þykkt eða svo.
  7. Bakið við 160°C í um 20 mínútur.
  8. Látið kólna í ofninum og skerið svo í bita.

Gott að hafa í huga

  • Athugið að aðeins mylst af köntunum af kexinu en safnið því bara saman í dós og notið í næsta skammt eða molið það niður sem krydd út á salat.
  • Kexið er gott með t.d. osti, smurosti, grænmetiskæfu, túnfisksalati o.fl.

Ummæli um uppskriftina

bop5
19. jan. 2012

Sæl Sigrún og takk fyrir frábæran vef! Mig langar að spyrja þig hvort það sé hægt að nota eitthvað annað en tómatsósu í þessa uppskrift?
mbk Berglind

sigrun
19. jan. 2012

Hmmmm ég er ekki viss. Þú gætir prófað Worcestershire sósu ef þú borðar svoleiðis? Eins gætirðu notað blöndu af tahini og eplaediki en ég hef ekki prófað það...þetta er svona það sem mér dettur í hug.