Hollustupoppkorn
Þetta poppkorn er alveg örugglega hollasta poppkorn sem þið getið búið til. Það er nauðsynlegt að eiga loftpopptæki (air popper) en slík tæki fást í flestum heimilistækjabúðum. Best er að kaupa þannig tæki að hægt sé að poppa beint í skál. Svoleiðis græja kostar ekki mikið og er frábær fjárfesting. Svo þarf maður olíuúðabrúsa (ég blanda saman smá ólífuolíu og vatni). Svoleiðis fæst í t.d. Pipar og Salt og ég get lofað ykkur að það verður ein mest notaða græjan á heimilinu! Í 100 g af venjulegu poppkorni sem keypt er geta verið um 400 hitaeiningar og allt að 40 grömm af fitu svona til viðbótar við saltið sem er svo mikið að það gæti hækkað blóðþrýstinginn í grjóti. Ég ætla ekki einu sinni að nefna „bíópopp” á nafn (bannað á þessu heimili...það er eiginlega blótsyrði he he). Í þessu poppi er minna en 1 gramm af fitu, um 1 g af salti (helmingurinn af því verður eftir í skálbrúnunum) og svona um 50-100 hitaeiningar. Þetta poppkorn er líka sniðugt fyrir krakka því það er mun minna salt í þessu en venjulegu poppi.
Hollustupopp fyrir alla fjölskylduna!
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Hollustupoppkorn
Innihald
- 90-100 g poppmaís (best er að kaupa lífrænt ræktaðan maís)
- Olíuúði (ólífuolía og vatn í úðabrúsa)
- 0,5 tsk (um það bil) salt (Himalaya eða sjávarsalt)
Aðferð
- Spreyið nokkrum olíubunum í hliðarnar innan í skálinni og dreifið með fingrunum (gott að vera í þunnum plasthönskum)
- Dreifið smá klípu af saltinu vel utan í hliðarnar, gott að dreifa með fingrum ef það lendir allt á einum stað.
- Poppið poppmaísinn og hafið skálina undir.
- Hreyfið poppkornið vel í skálinni og nuddið aðeins í hliðarnar til þess að það nái salti og olíu/vatni í sig.
- Þegar um helmingur maíssins er poppaður, endurtakið þá með olíuúða og salti (spreyið nokkrum bunum og stráið salti yfir).
- Þegar skálin er full, endurtakið þá aftur.
- Bætið meira salti við ef þið viljið hafa poppið saltara.
Gott að hafa í huga
- Sumum finnst gott að nota hvítlaukssalt í popp og sumir krydda popp með papriku eða öðru kryddi.
Ummæli um uppskriftina
17. jan. 2011
Vá þetta er snilld! Sem og í raun allar uppskriftirnar þínar :) Einfaldar og girnilegar :)