Hnetusósa frá Uganda
Hnetusósa er víða borin fram í Uganda og ekki sjaldan sem ég borðaði hnetusósu með mat þegar ég var í Uganda 2008 enda er hún hriiikalega góð og ekkert ósvipuð Satay sósu. Hún er ekki létt hitaeiningalega séð en hún er óskaplega góð og inniheldur auðvitað holla fitu. Sósan passar líka ótrúlega vel með mörgu t.d. marineruðu tofu, grænmetisborgurum, kjúklingi, fiski, soðnu grænmeti og mörgu fleira. Mér finnst mjög gott að fá mér hnetusósu með einhverju sem er magurt t.d. eins og mögrum fiski eða grænmeti og þá er maður kominn með fínt jafnvægi. Það sem þarf að passa vel er að krydda hnetusósuna í kaf þannig að maður hugsi mmmm sætsterk sósa en ekki mmmm Snickerssósa (ekki það að ég myndi nokkurn tímann á ævinni segja mmm og Snickers í sömu setningu en þið vitið hvað ég meina). Ef þið notið ekki hnetusmjör þurfið þið matvinnsluvél.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Hnetusósa frá Uganda
Innihald
- 250 g jarðhnetur án salts og hýðis (eða lífrænt framleitt mjúkt hnetusmjör)
- 1 tómatur
- 1 laukur
- 500-700 ml vatn
- Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 0,5 tsk chili eða meira eftir smekk
- 1 tsk svartur pipar og meira eftir smekk
Aðferð
- Skerið tómata og lauk í grófa bita og setjið í pott ásamt 500 ml af vatni. Látið sjóða í 5 mínútur.
- Ef ekki er notað hnetusmjör skal mala hneturnar afar fínt í matvinnsluvél og blanda svolitlu vatni saman við til að búa til mauk.
- Bætið hnetusmjörinu eða möluðu hnetunum út í pottinn og hrærið vel.
- Hitið að suðu án þess að brenni við, hrærið oft.
- Notið töfrasprota (eða matvinnsluvél) til að mauka allt vel. Því mýkri sem sósan á að vera, þeim mun lengur skuluð þið mauka sósuna.
- Bætið meira vatni saman við ef þið viljið þynnri sósu.
- Bætið chili saman við.
- Saltið og piprið helling.
- Berið fram heitt.
Gott að hafa í huga
- Sósan geymist í nokkra daga í ísskáp.
- Sósuna má frysta.
- Gott er að nota tabasco sósu eða sterka piparsósu ef maður vill aðeins sterkari sósu.
- Ef þið kaupið hnetusmjör gætið þess þá að það sé lífrænt framleitt og án sykurs því margar af þeim tegundum sem fást í matvöruverslunum eru drasl.
Ummæli um uppskriftina
14. sep. 2011
Ég gerði þessa í gærkvöldi með hnetusteik sem ég keypti. Ég verð að viðurkenna að mér leist ekki alveg á blikuna að gera sósu úr hnetusmjöri, en hún smakkaðist mjög vel í endann og þrátt fyrir "drasl" hnetusmjör sem hráefni. Ég á eftir að gera þessa aftur.
Eitt sem ég skildi ekki með uppskriftina þó: innihaldslistinn segir 1l vatn, en það er aðeins talað um 500ml í uppskriftinni.
14. sep. 2011
Góður punktur, búin að lagfæra :) Takk.... :)